„Þær spiluðu allar mjög vel“

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ánægður með mitt lið vegna þess að það var líf og stemmning í okkur,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is eftir ákaflega sannfærandi sigur Framara á Selfossi í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld

Lokatölur urðu 23:34 en leiðir skildu eftir fimmtán mínútna leik, þar sem Selfoss missti lykilmenn af velli, Perlu Albertsdóttur veika og Kristrúnu Steinþórsdóttur meidda.

„Selfoss var ekki með Kristrúnu í kvöld og það er rosalega mikið skarð fyrir þær. Þannig að þess vegna var þetta skyldusigur þar sem hún var ekki með. Þetta unga og efnilega Selfosslið spilaði vel í fyrri hálfleik en síðan kemur styrkleikamunurinn í ljós þegar líður á leikinn,“ sagði Stefán og bætti við að einbeitingin þurfi að vera til staðar þó munurinn á liðunum sé mikill.

„Við héldum fókus allan leikinn og það var stemmning í liðinu. Ég hef kallað eftir því og þess vegna er ég ánægður með það sem við vorum að sýna í kvöld.“

Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði 15 mörk í leiknum og Stefán var ánægður með hana eins og aðra liðsmenn sína.

„Ragnheiður er tekin úr umferð allan fyrri hálfleikinn en skorar samt sjö mörk þar. Hún var mjög öflug en liðið allt var gott. Það er erfitt að taka eina úr umferð á móti Fram því við erum með sterka leikmenn og þær spiluðu allar mjög vel,“ sagði Stefán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert