Nýir tímar undir stjórn Guðmundar

Guðmundur Þ. Guðmundsson ræðir við fréttamenn í Katar.
Guðmundur Þ. Guðmundsson ræðir við fréttamenn í Katar. EPA

Netútgáfa danska blaðsins BT segir að með tilkomu Guðmundar Þ. Guðmundssonar í starf landsliðsþjálfara karla í handknattleik séu greinilega komnir nýir tímar. Það hafi berlega komið í ljós þegar Guðmundur gaf ekki kost á sér í viðtöl við einstaka fjölmiðla eftir hefðbundinn fréttamannafund danska liðsins í Doha í Katar.

Danir mæta sem kunnugt er Íslendingum í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins annað kvöld klukkan 18 að íslenskum tíma.

Danska handknattleikssambandið tilkynnti strax í gær að fundur dagsins í dag yrði ekki með hefðbundnu dönsku sniði, en danskir fréttamenn hafa vanist því að fá að ræða við landsliðsþjálfarann sinn, hver og einn, þar til allir hafi fengið sitt.

Í tilkynningu Dana sagði: „Guðmundur Guðmundsson mun að vanda hefja fundinn með sínum inngangi. Hann mun svara tilfallandi spurningum og síðan yfirgefur hann fundinn.“

Guðmundur útskýrði málið stuttlega á fundinum: „Ég hef ekki tíma í meira. Málið er að við spiluðum seint í gærkvöld og ég vann til klukkan fjögur í nótt við að skoða okkar leik og leik mótherjanna. Nú þarf ég að undirbúa skipulagið fyrir leikinn, og gera jafnvel einhverjar breytingar, og ég hef mjög takmarkaðan tíma. Því tel ég að rétt sé að gera þetta svona,“ sagði Guðmundur.

Um sigurinn á Pólverjum sagði hann: „Ég  var mjög ánægður með leikinn, bæði með sóknarleikinn og varnarleikinn. Þetta leit allt vel út og ég er ánægður með að ég gat nýtt flesta leikmennina vel.“

Guðmundur vék líka nokkrum orðum að liði Íslands, sem hann sjálfur þjálfaði svo lengi með frábærum árangri: „Þeir hafa verið dálítið sveiflukenndir. Þeir hafa átt leiki sem ekki voru nógu góðir, og svo aðra sem voru mjög góðir. Ég þekki jú liðið afskaplega vel og veit hvað þeir geta. Þeir eru hættulegir andstæðingar,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert