„Stuðningurinn úr stúkunni var magnaður“

Íslenska liðið fagnar einu af mörkum sínum í kvöld.
Íslenska liðið fagnar einu af mörkum sínum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Ísland vann Rúmeníu 7:2 í fyrsta leik liðsins á heimsmeistaramótinu í íshokkí kvenna 2. deild B sem hófst á Akureyri í dag. Blaðamaður mbl.is fékk tvær heimakonur í spjall að leik loknum. Fyrirliðinn Linda Brá Sveinsdóttir og markvörðurinn Elise Valjaots, sem spilar nú í Skotlandi, voru sendar fram í viðtal.

Hvernig leið ykkur fyrir leikinn? Var einhver skrekkur í ykkur eða meiri spenna en vant er fyrst þið voruð að spila hér á Akureyri?

„Það var enginn skrekkur í liðinu en spennan var mikil og við vorum allar tilbúnar. Það var mikill andi í hópnum og við vorum bara tilbúnar. Það er auðvitað alltaf spenningur fyrir fyrsta leikinn,“ sögðu þær.

En hvernig var að ganga út á svellið hér á ykkar heimavelli?

„Það var bara æðislegt og stuðningurinn úr stúkunni var magnaður. Það voru miklu fleiri í stúkunni en við bjuggumst við og það var bara æði að heyra í áhorfendunum,“ sagði Linda.

„Það er mjög góð tilfinning að vera á heimavelli,“ bætti Elise við, „Akureyri er náttúrulega íshokkíbær og við fáum góðan stuðning.“.

„Svo var hér fyrr í dag afmælishátíð Skautafélagsins sem var að halda upp á 80 ára afmælið áður en leikurinn byrjaði,“ sagði Linda.

Hart barist á svellinu í kvöld.
Hart barist á svellinu í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Minna leyft en við eigum að venjast í leikjunum heima

En leikurinn sjálfur og liðið. Hvað viljið þið segja um þennan leik?

„Rúmenía er að koma upp um riðil og við spiluðum síðast við þær fyrir þremur árum. Við vissum ekki alveg við hverju var að búast. Við byrjuðum af krafti og urðum svo örlítið værukærar um miðbik leiksins og vorum líka full mikið í refsiboxinu. Maður þarf kannski að stilla sig aðeins inn á dómarana og það er minna leyft en við eigum að venjast í leikjunum hér heima. Dómararnir eru mjög færir og við þurfum bara að passa okkur betur í næstu leikjum,“ sagði Linda.

Elise var svo spurð um Skotlandsævintýri sitt.

„Ég spila með Solway Sharks í ensku kvennadeildinni. Það er eina skoska liðið sem er í deildinni. Þetta lið er með bækistöðvar aðeins fyrir utan Glasgow þar sem ég er núna í háskólanámi.“

En hvernig var að verja markið í leiknum?

„Það byrjaði nú frekar rólega en svo komu fleiri skot í annarri og þriðju lotu. Það var fúlt að fá á sig fyrsta markið en maður getur aldrei búist vð að allt gangi upp í leiknum. Það var t.d. lítið hægt að gera í seinna markinu þeirra. Ég er bara ánægð með minn hlut og leik liðsins,“ sagði Elise.

Sunna Björgvinsdóttir komin í færi gegn Rúmeníu í kvöld.
Sunna Björgvinsdóttir komin í færi gegn Rúmeníu í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Eins og atvinnuíþróttamaður í heila viku

Nú eruð þið allar saman á hóteli og farið ekkert heim í rúm að sofa í kvöld. Er þetta ekki dálítið skrýtið?

„Mér finnst þetta æðislegt,“ sagði Linda strax. „Nú setur maður bara allt til hliðar og er eins og atvinnuíþróttamaður í heila viku og þótt við séum á Akureyri þá er alveg nauðsynlegt að hafa allt liðið saman.“

Svo eru það Mexíkóarnir á morgun. Hvernig líst ykkur á þann leik?

„Við höfum mætt þeim tvisvar áður og unnum báða leikina, mjög naumlega samt. Þær eru mjög grimmar og duglegar. Þær verða því erfiður andstæðingur. Við eigum góðan séns en þurfum að bæta leik okkar frá því í dag, fækka ferðunum í refsiboxið. Þá verður þetta allt í lagi enda erum við með flott lið.“

Þið spiluðuð svo æfingaleik við Nýja-Sjáland um daginn. Hvernig var sá leikur?

„Ja, við unnum hann 4:2 eftir mjög jafnan leik. Við nýttum færin okkar betur og voru með betri markvörslu,“ sagði Linda. „Þær eru mjög góðar og hafa bætt sig frá því við sáum þær síðast en það var gott að vinna þann leik,“ bætti Elise við.

Þið eruð því ósigraðar í tveimur leikjum hérna á Akureyri.

„Já og við ætlum að halda áfram að vera ósigrandi á þessum velli,“ sögðu landsliðskonurnar að skilnaði.

Fyrirliðinn Linda Brá Sveinsdóttir með fyrirliða Rúmeníu.
Fyrirliðinn Linda Brá Sveinsdóttir með fyrirliða Rúmeníu. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert