Stórleikur Hauks en LF Basket tapaði

Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. mbl.is/Golli

Haukur Helgi Pálsson átti frábæran leik fyrir LF Basket í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld en það dugði ekki til því liðið tapaði með sex stiga mun fyrir toppliði Södertälje Kings, 86:80.

Staðan var jöfn fyrir lokaleikhlutann en þar náðu gestirnir yfirhöndinni. LF Basket minnkaði muninn í fjögur stig þegar hálf mínúta var eftir, 80:76, eftir sendingu Hauks, og aftur varð munurinn fjögur stig þegar 12 sekúndur voru eftir en nær komst LF Basket ekki.

Haukur skoraði 23 stig, tók 8 fráköst og átti 6 stoðsendingar, en hann skoraði hæst í öllum þremur tölfræðiþáttum hjá sínu liði í kvöld.

Sigurður G. Þorsteinsson skoraði 11 stig og tók 6 fráköst fyrir Solna Vikings sem tapaði með 20 stiga mun fyrir Borås Basket, 87:67. Borås hafði náð 24 stiga forskoti í fyrri hálfleiknum en staðan eftir hann var 51:27.

LF Basket er nú með 30 stig í 5.-6. sæti deildarinnar og Solna Vikings er sæti neðar en með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert