Kobe Bryant hékk uppi á vegg hjá LeBron James

LeBron James
LeBron James AFP

LeBron James sparaði ekki lofið til handa Kobe Bryant þegar bandarískir fjölmiðlamenn hittu hann að máli eftir að Bryant lýsti því yfir að núverandi tímabil yrði hans síðasta í körfuboltanum. 

LeBron var með plakat af Bryant uppi á vegg í herbergi sínu þegar hann var að alast upp í Akron í Ohio-ríki. „Ég hef alltaf sagt að ég fékk mikla hvatningu af því að fylgjast með Michael Jordan en mér fannst Jordan svo ævintýralega góður að ég taldi mig aldrei geta náð honum í getu. Kobe var leikmaður sem ég vildi reyna að líkjast og vildi geta spilað eins og hann. Mig langaði einfaldlega að vera nákvæmlega eins og hann,“ sagði James meðal annars og hann sagði tilhugsunina um Kobe Bryant hafa haldið sér við efnið eftir að hann kom inn í NBA-deildina. 

„Ég vissi að ég yrði að bæta mig ef ég ætlaði að keppa við Kobe Bryant. Ég vissi að hann væri í salnum að vinna í því að bæta sig. Og ég vissi hvað hann gat. Í hvert skipti sem ég fékk leiða eða langaði ekki að gera aukaæfingar þá hugsaði ég til Kobe. Ég vissi að hann væri að bæta sig. Ég sagði við sjálfan mig að tæki ég mér einn dag í frí þá myndi hann ná forskoti á mig og ég mætti ekki taka mér frí. Ég hef eiginlega notað hann sem hvatningu allar götur síðan og það verður skrítið að geta ekki gert það lengur.“

„Ég hef oft lýst aðdáun minni á Kobe og hversu góður hann er. Það verður aldrei neinn annar eins og hann í deildinni. Aldrei. Mér finnst sorglegt að þessi ferill sé brátt á enda runninn,“ sagði LeBron James meðal annars en hann hélt enn lengri ræðu um ágæti Bryant yfir fjölmiðlamönnum. 

Kobe Bryant tilkynnir fjölmiðlamönnum um ákvörðun sína.
Kobe Bryant tilkynnir fjölmiðlamönnum um ákvörðun sína. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert