Kvennalandsliðið tryggði sér silfrið

Íslenska kvennalandsliðið á góðri stundu í San Marínó.
Íslenska kvennalandsliðið á góðri stundu í San Marínó. Ljósmynd/ÍSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik var nú rétt í þessu að tryggja sér silfurverðlaun á Smáþjóðaleikunum í San Marínó eftir sigur á Lúxemborg, 59:44, í hreinum úrslitaleik um silfrið.

Ísland var yfir eftir fyrsta leikhluta og var með tólf stiga forskot í hálfleik, 31:19. Íslenska liðið hélt forskotinu og uppskar að lokum magnaðan 15 stiga sigur, 59:44.

Helena Sverrisdóttir var stigahæst hjá Íslandi í dag, en hún skoraði 21 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Emelía Ósk Gunnarsdóttir kom næst með 10 stig. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir tók 10 fráköst.

Ísland tapaði fyrir Möltu í fyrsta leik sínum á miðvikudag en vann Kýpur í gær. Malta vann alla sína leiki og fékk gullið, Ísland silfrið sem fyrr segir og Lúxemborg fékk brons. Kýpur rak lestina eftir að hafa tapað öllum sínum leikjum.

Þetta er fimmta árið í röð sem íslenska kvennalandsliðið fær silfur á Smáþjóðaleikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert