Nýliðarnir lögðu Hauka

Damier Pitts og Dúi Þór Jónsson í fyrri leik liðanna …
Damier Pitts og Dúi Þór Jónsson í fyrri leik liðanna á tímabilinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Álftanes hafði betur gegn Haukum, 98:91, þegar liðin mættust í 21. og næstsíðustu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag.

Sigurinn þýðir að nýliðar Álftaness eru komnir með 24 stig í sjötta sæti og voru þegar búnir að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Haukar hafa ekki að neinu að keppa og hafna í tíunda sæti deildarinnar, þar sem liðið er með 10 stig.

Álftanes var með yfirhöndina að loknum fyrri hálfleik enda leiddu gestirnir með átta stigum, 50:42.

Haukar mættu sterkir til leiks í síðari hálfleik og minnkuðu muninn niður í aðeins þrjú stig, 71:68, þegar þriðji leikhluti hafði runnið sitt skeið.

Haukur og Okeke með 25 stig

Í fjórða leikhluta náðu Álftnesingar hins vegar vopnum sínum að nýju og unnu að lokum góðan sjö stiga sigur.

Stigahæstur hjá Álftanesi var Haukur Helgi Pálsson með 25 stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar.

Litháinn Norbertas Giga, sem lék með Haukum á síðasta tímabili, bætti við 15 stigum, 13 fráköstum og fimm stoðsendingum.

Stigahæstur hjá Haukum var David Okeke með 25 stig og 11 fráköst. Everage Richardson bætti við 21 stigi og fimm stoðsendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert