Rosaleg harka í leikjunum

Remy Martin fór á kostum fyrir Keflavík.
Remy Martin fór á kostum fyrir Keflavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflavík er í lykilstöðu í einvíginu gegn Álftanesi eftir að hafa komist 2:1 yfir í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur var ánægður í leikslok og hafði þetta að segja strax eftir leik:

„Það voru margir að leggja sig meira fram í kvöld og leikurinn var nær hraðanum sem við viljum spila en í leiknum á Álftanesi. Álftanes hitti samt vel og spilaði mjög vel. Þetta var hörkuviðureign milli tveggja góðra liða og þeir voru að berjast við að hægja á okkur og við á sama tíma reynum að auka hraðan í leiknum," sagði Pétur við mbl.is spurður út í hvað hafi ráðið úrslitum í kvöld.

Talandi um það. Þessi lið eru í raun algjörar andstæður. Keflavík vill spila á miklum hraða á meðan Álftnesingar vilja hægja á leiknum og eru fastir fyrir í vörninni. Hvernig er að halda uppi orku í svona leiki gegn liði sem spilar gríðarlega fasta vörn?

„Við erum búnir að vera æfa okkur fyrir svona hluti frá því strax eftir verslunarmannahelgi en strákarnir þurfa kannski að svara þessu með orkuna. En þetta er rosalega erfitt og erfiðir leikir. Meðan að það er svona rosaleg harka í leikjunum þá þurfum við bara að undirbúa okkur fyrir það og vera tilbúnir í það, sérstaklega í næsta leik."

Keflavík virðist alltaf eiga auka orku í lok leikja sem virkar eins og ákveðin forgjöf og það sást hjá Remy í fjórða leikhluta. Er þetta rétt metið?

„Forgjöfin er kannski helst heimavöllurinn í kvöld. Við spiluðum við þá á Álftanesi og þá kom engin forgjöf í fjórða leikhluta. Remy er samt með guðs gjöf þegar kemur að körfubolta og við hjá Keflavík erum mjög heppin að hafa hann í okkar liði og notfærum okkur það."

Ef við berum saman þessa tvo leiki, þennan í kvöld og þann sem fór fram á Álftanesi. Í hverju felst munurinn í ljósi niðurstöðu leikjanna?

Í sjálfu sér er munurinn ekki mikill á þessum leikjum. Aðalmunurinn er kannski bara hjá okkur. Þeir spiluðu hart á okkur á Álftanesi og við fórum að leitast eftir afsökunum en í kvöld gerðum við það ekki og mættum þeim bara."

Eðlilega ætlar Keflavík að klára þessa seríu á þriðjudaginn á Álftanesi. Er eitthvað sérstakt sem Keflavík þarf að bæta til að ná fram sigri þar?

„Miðað við leikinn á Álftanesi er margt sem við þurfum að gera betur. Við þurfum bara að eiga aðeins betri skotleik til að ná fleiri stigum. Þetta verður hörkuleikur og Álftanes ætlar ekki að gefa okkur neitt í þeim leik og við þurfum að hafa okkur alla við. Vonandi verðum við að minnsta kosti betri sóknarlega en við vorum í síðasta leik á þeirra heimavelli," sagði Pétur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert