Pútín: Rússar eru fórnarlömb mismununar

Vladimir Putin við ræðupúltið á athöfninni í dag.
Vladimir Putin við ræðupúltið á athöfninni í dag. AFP

Vladimir Pútín ásakar alþjóðafrjálsíþróttasambandið um tvískinnung og mismunun í tengslum við ákvörðun sambandsins um að banna rússneska frjálsíþróttaliðið frá keppni á Ólympíuleikunum í Ríó. Pútín fór hörðum orðum um sambandið þegar hann ávarpaði yfir 150 íþróttamenn í Kreml í dag. 

„Í þessari herferð gegn íþróttamönnum okkar fólst alræmdur tvískinnungur, hugmyndir um sameiginlega ábyrgð og hvarf frá forsendunni um sakleysi. Það er ósamrýmanlegt íþróttum og réttlæti.“

Pútín fullyrti að ásakanir á hendur rússnesku íþróttamönnunum væru ekki byggðar á neinum sönnunargögnum og að fjarvera Rússa drægi úr samkeppni á leikunum. Hann sagði jafnframt að þetta væri ógn gagnvart lögmálunum um jafnræði, réttlæti og gagnkvæma virðingu. 

„Í grunninn er þetta endurskoðun, eða að minnsta kosti tilraun til endurskoðunar, á hugmyndum Pierres de Coubertins, forsprakka ólympíuleika nútímans.“

Í sömu ræðu lofar Pútín að starfa með alþjóðasamfélaginu til að uppræta lyfjanotkun í íþróttum og minntist á lyfjanotkunarnefndina sem hann kom á fót í síðustu viku. 

Síðasta sunnudag úrskurðaði alþjóðaólympíunefndin gegn allsherjarbanni á rússneska íþróttamenn en tiltók að þeim sem komu fyrir í McLaren-skýrslunni um lyfjanotkun yrði meinuð þátttaka í Ríó. Bannið nær yfir 105 af 387 rússnesku ólympíuförunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert