Íslandstenging góð í drykkjasölu

Matvælaframleiðendum finnst mikilvægt að tengja drykkjarvörur við Ísland.
Matvælaframleiðendum finnst mikilvægt að tengja drykkjarvörur við Ísland. mbl.is/Árni

Allir aðspurðir drykkjarvöruframleiðendur telja mjög mikilvægt að leggja áherslu á upprunalandið Ísland í markaðssetningu erlendis. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem gerð var meðal 157 íslenskra fyrirtækja í matvælaframleiðslu.

Um 62,8 prósent aðspurðra voru þegar að selja vörur sínar á erlendum mörkuðum. Flest fyrirtækjanna, eða um 63,6 prósent, voru stofnuð með útflutning í huga. Um fjórðungur tók ákvörðun um útrás eftir að hafa áður verið á innlendum markaði en um tólf prósent fyrirtækjanna sögðust hafa rambað í útflutning fyrir tilviljun.

400 milljón króna verkefni

Gallup framkvæmdi könnunina fyrir Íslandsstofu en hún var gerð í samstarfi við hagsmunafélög í framleiðslu matvæla. Könnunin var lögð fyrir 330 fyrirtæki en 157 þeirra svöruðu.

Markmiðið var að varpa ljósi á tækifæri og framtíðarsýn í greininni auk þess að fá fram viðhorf fyrirtækja og hagsmunaaðila til að byggja á við mótun á áherslum til að auka gjaldeyristekjur af útflutningi matvæla.

Væntingar eru um að kortlagningarvinnan nýtist í stefnumörkun og mótun á aðgerðum, sem ætlunin er að vinna undir merkjum Matvælalandsins Íslands. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja samtals 400 milljónum króna í verkefnið á næstu fimm árum en Íslandsstofa hefur umsjón með framkvæmd þess.

Misgóðar dreifileiðir

Af þeim fyrirtækjum sem flytja vörur sínar reglulega út sögðu um 81,7 prósent að útflutningurinn væri reglulegur og að vörurnar hefðu fest sig í sessi á erlendum markaði. Tæpur fimmtungur sagðist aftur á móti einungis flytja vörur sínar stöku sinnum út.

Í könnuninni kemur í ljós að fyrirtæki hafa mismunandi skoðanir á dreifileiðum inn á erlenda markaði. Flestir hafa áhuga á því að selja vörurnar til dreifingaraðila, eða tæp fjörtíu prósent en fæstir hafa áhuga á að selja þær beint til veitingastaða, eða 13,1 prósent.

Einnig virðist lítill áhugi fyrir því að selja vörur í gegnum Internetið, en alls höfðu um 13,3 prósent áhuga á því

Margir virðast telja mjög mikla þörf á fræðslu og ráðgjöf um reglugerðir og kröfur á erlendum mörkuðum auk fræðslu um markaðsstarf á erlendum mörkuðum.

Þá vöru mismunandi skoðanir á því hversu mikil þörf væri á því að tengja vöruna við upprunalandið Ísland. Allir aðspurðir drykkjavöruframleiðendur töldu mjög mikla þörf á því. Hins vegar töldu aðeins 63,5 fyrirtækja sem stunda útflutning á sjávarafurðum mjög mikla þörf á því.

Hér má skoða niðurstöður könnunarinnar nánar.

Aðeins 13,3 prósent höfðu áhuga á netsölu.
Aðeins 13,3 prósent höfðu áhuga á netsölu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK