Hundruð vilja bætur frá Björgólfi

Skaðabótamál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni verður þingfest á morgun.
Skaðabótamál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni verður þingfest á morgun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þrír lífeyrissjóðir eru meðal rúmlega tvö hundruð þátttakenda í hópmálsókninni gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Jó­hann­es Bjarni Björns­son, lögmaður og eig­andi Lands­laga, sér um að reka málið og segir sífellt fleiri vera að bætast við og á jafnvel von á nýjum og áhugaverðum þátttakendum í dag.

Lífeyrissjóðirnir eru Stapi, Lífeyrissjóður verkfræðinga og Lífeyrissjóður starfsmanna sveitafélaga.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun, þann 27. október.

Hefðu ekki kært sig um að vera hluthafar

Í stefnu málsins segir að félagsmenn séu allir í þeirri stöðu að hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að þeir áttu hlutabréf í Landsbankanum sem urðu verðlaus hinn 7. október 2008 og að þeir hafi verið í þeirri stöðu vegna saknæmrar háttsemi Björgólfs. Þeir hefðu ekki kært sig um að vera hluthafar ef upplýst hefði verið að Landsbankinn lyti stjórn Samson, og hefði átt að teljast móðurfélag hans, og ef upplýst hefði verið um umfangsmiklar lánveitingar bankans til Björgólfs.

Tjón þeirra er talið svara til þess verðs sem greitt hefði verið fyrir hlutabréfin á almennum markaði á þessum tíma, þ.e. þegar skylt varð að veita upplýsingar um yfirráð bankans og lántökur, eða samkvæmt yfirtökuboði. Tjóns annarra, sem keyptu bréf eftir þennan tíma, er talið miðast við kaupverð bréfa sinna. Endanleg fjárhæð mun hins vegar ráðast af því á hvaða grundvelli og frá hvaða tíma fallist verður á bótaskyldu - ef á hana verður á annað borð fallist.

Óvissa með fyrningu

Jóhannes segir að hægt sé að koma inn í málið allt fram að aðalmeðferð en bendir á að betra sé að skrá sig sem fyrst, þar sem fyrningarfrestur verður rofinn með því. Hann segir líklegustu upphafsdagana, sem fyrningin gæti miðast við, vera tvo; Annars vegar þegar brotin byrja, þ.e. fyrir tíu árum síðan, eða í lok október 2005, og hins vegar gæti það miðast við daginn þegar bréfin voru keypt, hvort sem það var fyrr eða seinna.

Lögum um fyrningu var breytt á þessu tímabili, en fram til 1. janúar 2008, fyrndust skaðabótakröfur á tíu árum frá því að brot áttu sér stað. 

Núna í lok október eru þessi tíu ár liðin og Jóhannes bendir því á að mikilvægt hafi verið að þingfesta málið á þessum tíma til þess að tryggja að þátttakendur væru innan þess tímaramma.

Ný lok tóku hins vegar gildi 1. janúar 2008, en samkvæmt þeim miðast fyrningin við fjögur ár frá því að viðkomandi var með allar upplýsingar til þess að geta sótt bætur. Sú dagsetning liggur ekki fyrir og verður háð mati dómstóla. 

Jóhannes segir fyrirséð að tekist verði á um þetta og er viss um að fyrningu verði borið við. „Það veit ég af því að ástæðan fyrir því að hann vildi ekki taka við stefnunni er sú að stefnubirting rýfur fyrningu. Ef þú tekur ekki við henni ertu að reyna vinna þér inn daga, vikur eða mánuði,“ segir hann.

Margir hluthafar gjaldþrota

Jóhannes bendir á að stærstu hluthafar Landsbankans frá þessum tíma, fyrir utan lífeyrissjóði og félög sem hafa verið í öðrum rekstri en bara fjárfestingum á hlutabréfum, séu gjaldþrota. Þeir sem eftir eru, og geta tekið þátt í málinu, eru í kringum tíu prósent allra hluthafa.

Björgólfur hefur varað þátttakendur við því að kostnaður málsins gæti endað hjá ein­um óheppn­um þátt­tak­anda í mál­sókn­ar­fé­lag­inu sök­um óskiptr­ar ábyrgðar á greiðslum.

Jóhannes bendir á álit sem fengið var frá hæstaréttalögmanninum Ragnari H. Hall um efnið og segir þetta vera rangt hjá Björgólfi. Í álitnu segir að meðlimir félagsins séu ekki sjálfir aðilar málsins. Aðeins gæti reynt á ábyrgð þeirra ef eignir félagsins hrökkva ekki til greiðslu mögulegrar kröfu eða málskostnaðar.

Jóhannes Bjarni Björns­son, eig­andi Lands­laga, sér um rekstur hópmálsóknarinnar.
Jóhannes Bjarni Björns­son, eig­andi Lands­laga, sér um rekstur hópmálsóknarinnar. Mynd/Árni Sæberg
Dómstólar munu skera úr um fyrningu.
Dómstólar munu skera úr um fyrningu. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Margir stórir hluthafar eru gjaldþrota.
Margir stórir hluthafar eru gjaldþrota. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka