Bjóða Náttúruminjasafni aðstöðu í Perlunni

Perlan.
Perlan. mbl.is/Ómar

Einkahlutafélagið Perla norðursins, sem hyggst setja upp veglega náttúrusýningu í Perlunni, hefur boðið Náttúruminjasafni Íslands endurgjaldslausa aðstöðu í húsinu. Stofnunin hefur ekki haft eigið húsnæði til sýningarhalds eftir að hún var sett á laggirnar árið 2007.

Menntamálaráðuneytið sendi fyrr í mánuðinum Náttúruminjasafni og safnaráði erindi þar sem óskað er eftir áliti á tilboði einkahlutafélagsins.

Félagið býður Náttúruminjasafni endurgjaldslausa aðstöðu í Perlunni, eina hæð, upp undir 500 fermetra. Auk þess býðst félagið til þess að greiða safninu laun vegna sýningarhaldsins sem og hita- og rafmagnskostnað.

Á móti þyrfti ríkið að greiða fyrir uppsetningu sýningarinnar og árlegt viðhald. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver kostnaður þess yrði, að sögn Hilmars J. Malmquist, forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands.

Stærsta náttúrusýning landsins

Greint var frá því fyrr á árinu að Perla norðursins hefði gengið til samninga við Reykjavíkurborg um leigu á Perlunni.

Félagið var stofnað í fyrra um verkefnið, en fram kom í Fréttablaðinu að eigendur þess væru Landsbréf – Icelandic Tourism Fund I, framtakssjóðir í eigu Landsbankans, Icelandair Group og íslenskra lífeyrissjóða, Perluvinir – 80 manna hópur sem hvatt hefur til uppbyggingar náttúrusýningar í Perlunni og Salta ehf. & Lappland ehf. – fjárfestingarfélög sem hafa það að markmiði að fjárfesta í ferðaþjónustu á sviði afþreyingar, hótela og safna.

Frétt mbl.is: Stjörnuver og íshellir í Öskjuhlíð

Félagið mun standa fyrir náttúrusýningu í Perlunni, sem opnar á næsta ári, og hefur boðið Náttúruminjasafninu eina hæð til ráðstöfunar, eins og áður sagði.

Hilmar segir í samtali við mbl.is að um nýtt og áhugavert tækifæri sé að ræða.

Ekki búið við viðunandi safn í 130 ár

„Tilboðið lítur bara býsna vel út í mínum augum. Ég hef sagt það oft áður að þjóðin hefur ekki búið við viðunandi safn af þessu tagi í hartnær 130 ár eða síðan Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað 16. júní árið 1889. Meginmarkmið þessa félagsskapar er að koma upp sýningaraðstöðu í náttúrufræðum fyrir þjóðina þannig að sómi sé að. Þó svo að það hafi verið gerðar heiðarlegar tilraunir og myndarlegt safn rekið um tíma, þá hefur það allar götur verið við óviðunandi aðstæður,” segir hann.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Hann segir að frá árinu 2007, þegar Náttúruminjasafnið var formlega sett á laggirnar sem höfuðsafn með lögum, hafi safnið ekki haft neina aðstöðu sem það ræður yfir sjálft. „Nú sjáum við tækifæri eftir 130 ára bið.“

Málið í höndum ráðherra

Hilmar segir að Náttúruminjasafnið muni líklegast svara erindi menntamálaráðuneytisins um miðjan ágústmánuð. Málið verði þá í höndum ráðherra sem taki ákvörðun um næstu skref.

„Ráðuneytið leitaði eftir áliti okkar á þessu tilboði og bað okkur sérstaklega um að skoða það hvort samstarf af þessu tagi, á milli ríkisstofnunar og einkaaðila, samræmdist íslenskum lögum og alþjóðlegum siðareglum í safnageiranum.“

Náttúruminjasafnið sé eitt af þremur höfuðsöfnum landsins og hafi lögbundið hlutverk. Í bæði safnalögum og siðareglum sé að finna ákvæði um að söfn megi ekki reka í hagnaðarskyni.

„Ég held að þetta samstarf sem um ræðir standi nú fyrir utan það. Í fyrsta lagi er þetta sýningarhald, en ekki rekstur safns. Stafsemi höfuðsafnins felur í sér margt annað en sýningarhald,“ útskýrir Hilmar.

Hann bendir á að fjárfestarnir muni vissulega hirða tekjurnar af miðasölu og annarri þjónustu, svo sem veitingaþjónustu, en þeir greiði rekstrarkostnaðinn. „Ef allar faglegar og fjárhagslegar kröfur Náttúruminjasafnsins standa eftir óskaraðar í þessu samstarfi, þá get ég ekki séð að það sé hægt að andmæla því með vísun í þessar siðareglur,“ segir Hilmar.

Nýtt safn bráðnauðsynlegt

Ertu vongóður um að þetta verði að veruleika?

„Já, ég trúi ekki öðru. Þessi samvinna ríkisaðila og einkageirans ætti alveg að geta gengið upp. Það er alla vega trú einkageirans. Hann leggur þetta tilboð fram og vill hafa höfuðsafnið með sér.

Safn af þessu tagi, sem má líta á sem formlegan hluta af menntakerfinu, er bráðnauðsynlegur þáttur í samfélaginu okkar. Allar þjóðir sem við berum okkur saman við státa af glæsilegum stofnunum af þessu tagi sem eru meðal vinsælustu safna í viðkomandi löndum. Og við, sem reiðum okkur svo mikið á náttúruna, þurfum sérstaklega á þessu að halda til þess að upplýsa og fræða fólk um náttúruna,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK