Hvernig er best að æfa sig fyrir lengri fjallgöngur eins og Hvannadalshnúk? Margir hafa velt þessu fyrir sér. Svarið er þó einfaldara en margur heldur. Í stuttu máli eru fjallgöngur besta æfingin fyrir fjallgöngur. Æskilegt er að ganga reglulega á fjöll til að koma sér í form. Því lengra sem æfingatímabilið er því betra. Þriggja mánaða æfingatímabil dugar flestum með góðan alhliða grunn. Þeir sem lítið hafa stundað íþróttir eða útiveru þurfa lengri æfingatíma.
Mælt er með að ganga a.m.k. einu sinni í viku. Göngurnar geta verið af öllum erfiðleikastigum. Vinsælt er að ganga á Esjuna og er það líklega besta æfingin sem býðst á höfuðborgarsvæðinu. Gangan frá Mógilsá er nokkuð brött og tekur vel í. Yfir vetrartímann er þó ekki ráðlegt að fara upp klettabeltið á Þverfellshorni vegna hálku.
Ef gengið er á kvöldin snemma vetrar er nauðsynlegt að hafa með sér höfuðljós. Auk gönguferða á Esjuna er um að gera að spreyta sig á öðrum fjöllum. Tillögur að æfingagöngum eru að finna á síðu Fjallafélagsins með leiðalýsingum.
Með fjallgöngunum er einnig gott að stunda aðra hreyfingu eins og hlaup, sund eða æfingar í líkamsræktarstöðvum.