Hvernig á að raða í bakpoka? Þessa spurningu hef ég oft fengið en oftast orðið fátt um svör. Ég nefnilega aldrei velt þessu mikið fyrir mér. Oft hef ég troðið farangri mínum tilviljanakennt í bakpokann án þess að skeyta um í hvaða röð hlutirnir koma. Með tímanum hef ég þó komið mér upp einhvers konar aðferð sem er að mestu ómeðvituð. Auðvitað skiptir það máli hvernig raðað er í bakpoka. Hér fer á eftir mín aðferð.
Ég reyni að hafa farangur sem þjappast vel og fyllir vel út í bakpokann neðst. Efst hef ég hluti sem raðasti illa og eru óreglulegir í laginu eða umfangsmiklir miðað við þyngd. Neðst reyni ég einnig að hafa hluti sem ég þarf ólíklega að nota fyrr en í áfangastað er komið, en efst hluti sem ég þarf að nota á göngunni. Í miðjunni reyni ég svo að hafa þunga hluti.
Með framangreint í huga byrja ég á að þjappa svefnpoka og aukafatnaði neðst. Ég tryggi að farangurinn fylli sem best út í neðsta hlutann af pokanum. Næst treð ég litlum og mjóum hlutum niður með þannig að það þjappist enn betur í neðsta hlutann. Næst kemur þungi farangurinn, matur og annað þess háttar. Efst er svo gott að hafa myndavél, prímus, pott, loftdýnu og nesti yfir daginn. Frauðdýnur og tjöld fara oftast utaná pokann.
Aðalatriðið er þó að setja eins lítið í bakpokann og mögulegt er. Hvert gramm skiptir máli. Því léttari sem bakpokinn er því auðveldari verður gangan.