Myndir birtar af flótta ræningjanna frá Munch safninu

Frá Munch safninu eftir að lögregla kom á vettvang.
Frá Munch safninu eftir að lögregla kom á vettvang. AP

Lögreglan í Ósló í Noregi leitar enn manna sem rændu tveimur málverkum, Madonnu og útgáfu af Ópinu, úr Munch safninu í morgun. Hún hefur ennfremur óskað eftir aðstoð almennings við leit að mönnunum og málverkunum, en talið er að Ópið gæti verið 2,5-3 milljarða íslenskra króna virði og Madonna um 1,5 milljarða virði.

Tveir vopnaðir og grímuklæddir menn héldu inn í safnið í morgun og tóku málverkin með sér. Lögreglan fann flóttabifreið ræningjanna við tennishöll í Ósló eftir nokkra klukkustunda leit, en þeir óku Audi A6 bifreið. Vefsvæði norska ríkisútvarpsins (NRK) hefur birt ljósmyndir af því þegar tveir ræningjanna héldu á málverkunum út úr safninu og komu þeim fyrir í skotti bifreiðarinnar óáreittir. Þriðji maðurinn ók bifreiðinni á brott. "Við heyrðum ekki í viðvörunarbjöllum og það tók lögreglu talsverðan tíma að koma á vettvang," sagði Mary Assiliou, bandarískur ferðamaður sem var í safninu þegar málverkunum var rænt.

Valgerd Svarstad Haugland, menntamálaráðherra Noregs, sagði að ránið væri hræðilegur atburður. "Við höfum ekki varið menningarverðmæti okkar nægilega vel. Við verðum að læra af þessari reynslu," sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert