Húsleit á heimili föðurins

Mansur Mhashev flutti til Noregs frá Tsjetsjeníu. Hann er grunaður …
Mansur Mhashev flutti til Noregs frá Tsjetsjeníu. Hann er grunaður um að hafa látið ræna dætrum sínum í dag.

Vopnaðir lögreglumenn gerðu í kvöld húsleit á heimili Mansur Mahashev, föður stúlknanna tveggja sem var rænt í Noregi fyrr í dag. Að sögn NRK hefur lögregla fengið fjölda ábendinga frá almenningi, en að öðru leyti hefur lítið verið látið uppi um málið.

Stúlkunum, sem eru 6 og 8 ára gamlar, var rænt af tveimur grímuklæddum mönnum á leiðinni heim úr skóla í dag, en blóðfaðir þeirra var einnig á staðnum og er sagður hafa komið í veg fyrir að fósturforeldrarnir gætu hringt strax á lögreglu. Hann lagði svo sjálfur á flótta og hefur ekki sést síðan.

Systurnar, sem heita Somaja og Rajana, eru af tsjetsjenskum uppruna og hefur fjölskylda þeirra allt frá komunni til Noregs verið skráð til heimilis í Ósló. Þær höfðu hinsvegar um nokkurt skeið búið hjá norskri fósturfjölskyldu í Kongsvinger í Austurmörk. Litlar upplýsingar hafa fengist um fjölskylduhagi þeirra, en Dagbladet segir þó frá því í kvöld að faðir þeirra hafi verið ákærður fyrir vanrækslu á börnum.

Málið hefur enn ekki farið fyrir dómstóla, en að sögn lögmanns barnaverndaryfirvalda, Johns Christians Elden, stóð til að ákveðið yrði síðar í þessari viku hvort stúlkurnar yrðu áfram í umsjón fósturfjölskyldu.

Systurnar höfðu sótt grunnskólann í Kongsvinger síðan um áramót, að sögn Dagbladet. Að sögn skólastjórans, Britt-Marie Paulsson, eru ekki margir nemendur af erlendum uppruna þar, en stúlkurnar hafi þó aðlagast skólasamfélaginu vel og eignast marga vini. Engan hafi grunað að þær væru í hættu að verða rænt.

Nemendum og kennurum hefur verið boðin áfallahjálp. Skólastjórinn segist í samtali við Dagbladet óska þess eins að allt fari vel og stúlkurnar skili sér aftur öruggar heim.

Sjá fyrri frétt mbl.is: Systrum rænt í Noregi

Systurnar Somaja, 8 ára, og Rajana, 6 ára, voru á …
Systurnar Somaja, 8 ára, og Rajana, 6 ára, voru á leið heim úr skólanum þegar þeim var rænt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert