Vopnaðir eins lengi og þörf krefur

Mikill viðbúnaður hefur verið hjá norsku lögreglunni undanfarna daga.
Mikill viðbúnaður hefur verið hjá norsku lögreglunni undanfarna daga. Mynd/AFP

„Við höfum endurskoðað vinnubrögð okkar og ráðstafanir síðan í gær. Við sjáum ástæðu til þess að breyta og draga úr einhverjum ráðstöfunum okkar í ljósi nýrra ógna. Þetta mun koma til framkvæmda á næstu dögum,“ sagði norski lögreglustjórinn Odd Reidar Humlegård á blaðamannafundi í dag vegna hryðjuverkaógnarinnar í Noregi.

Lögreglan í Noregi fékk í dag ný fyrirmæli en mikill viðbúnaður hefur verið hjá lögreglunni þar í landi undanfarna daga. Virðist nú vera sem lögreglan ætli að draga smám saman úr eftirliti og sýnileika lögreglunnar líkt og fram kom á blaðamannafundinum í dag samkvæmt tv2.no.

„Við ætlum að styrkja upplýsingaöflun og greiningarvinnu lögreglunnar enn frekar ásamt landamæra- og innflytjendaeftirliti,“ sagði Humlegård.

Hann segir hættuna enn vera óskilgreinda ógn og að lögreglan hafi engin nöfn grunuð. „Það er þó ástæða til að hafa varann á enn um sinn,“ sagði hann.

Humlegård segir það koma í ljós á næstu dögum hversu lengi það sé nauðsynlegt að hafa vopnaða lögreglu á götum úti en segir að lögreglumenn verði vopnaðir á götum eins lengi og þörf krefur. Þá lagði hann áherslu á að það yrði að fara fram stöðugt mat á ógnum á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert