Hélt í höndina á deyjandi manni

Slysið var alvarlegt eins og greinilega má sjá á rútunni.
Slysið var alvarlegt eins og greinilega má sjá á rútunni. Mynd/AFP

Skelfilegt rútuslys varð í Norður-Þrændalögum í Noregi í dag þegar 16 manna rúta valt með þeim afleiðingum að þrír létust og hinir 13 meiddust, sumir alvarlega. Maður sem kom að slysstaðnum lýsir því að örvænting hafi ríkt og hvernig deyjandi maður hélt í höndina á honum þar til hann kvaddi þennan heim. 

„Maðurinn var við meðvitund þegar ég kom á staðinn en hann lá fastklemmdur undir rútunni. Sjúkrabíllinn komst ekki að svæðinu og við þurftum að bíða eftir aðstoð frá slökkviliðsbíl. Maðurinn sem lá undir rútunni kreisti höndina á mér fastar og fastar þar til hann sleppti takinu allt í einu,“ segir Johannes Rekonius vörubílstjóri í samtali við norska ríkissjónvarpið NRK. Hann var með þeim fyrstu á slysstaðinn. Þegar hann kom á staðinn ríkti mikil ringulreið og dramatíkin var mikil. „Þessi maður sem lá undir rútunni öskraði á mig að hann væri að fara að deyja. Ég fór til hans, tók í höndina á honum og sagði honum að aðstoð væri á leiðinni. 

„Slökkviliðsmennirnir náðu að klippa manninn undan bílnum en þá andaði hann ekki lengur. Hann var látinn. Þetta var erfið upplifun, sérstaklega þar sem ég var búinn að segja við hann að aðstoð væri á leiðinni,“ segir Rekonius. 

Farþegarnir í rútunni voru á leið frá Sviss til Nordkapp, sem er einn af nyrstu bæjum Noregs. Átti sá bær að vera einn af hápunktum ferðarinnar. Rútan var búin að vera á ferðalagi í tíu daga. 

Sjá frétt NRK

Mynd/AFP
Mynd/AFP
Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert