Ógiltu lög gegn samkynhneigðum

Lögunum var mótmælt víða um heim, m.a. í nágrannalandinu Kenía.
Lögunum var mótmælt víða um heim, m.a. í nágrannalandinu Kenía. AFP

Stjórnlagadómstóll í Úganda hefur ógilt umdeild lög um hertar refsingar gegn samkynhneigðum. Lögin voru samþykkt á þinginu í desember og staðfest af forseta landsins í upphafi árs.

Dómstólinn segir að frumvarpið hafi ekki fengið rétta meðferð á þinginu er það var samþykkt. Fram hefur komið að örfáir þingmenn voru viðstaddir og að fæstir þeirra, ef nokkrir,  hefðu séð frumvarpið þó að þeir hafi verið látnir kjósa um það.

Dómstólinn segir að lögin gangi af þessum sökum gegn stjórnarskrá landsins.

Lög gegn samkynhneigð karla hafa lengi gilt í Úganda. Með nýju lögunum voru refsingarnar hins vegar hertar og í fyrsta sinn einnig fjallað um lesbíur. Þá voru borgarar skyldaðir til að segja til samkynhneigðra. 

„Ég er ekki lengur glæpamaður,“ skrifar Kasha Jacqueline, talsmaður samkynhneigðra í Úganda, á twittersíðu sína. „Dagurinn í dag er sögulegur fyrir komandi kynslóðir.“

Hún lýsti aðstæðum sínum í Úganda í samtali við mbl.is, skömmu eftir að lögin voru samþykkt á þinginu.

Viðtal mbl.is við Köshu: „Ég fer ekki út, ég er bara hér“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert