Fjölbýlishús hrundi eftir sprengingu

Eina sem stendur eftir af fjölbýlishúsinu eru þessar rústir.
Eina sem stendur eftir af fjölbýlishúsinu eru þessar rústir. AFP

Þrír létust þegar fjögurra hæða fjölbýlishús hrundi í kjölfar sprengingar í úthverfi Parísar í Frakklandi í dag. Átta ára gamalt barn er á meðal þeirra sem létust.

Tvær konur létust einnig, en önnur þeirra var á níræðisaldri. Atvikið átti sér stað í úthverfinu Rosny-sous-Bois í norðausturhluta borgarinnar um kl. átta að staðartíma (um 06:00 að íslenskum tíma).

„Húsið okkar færðist til og við skulfum af ótta,“ segir nágranni í samtali við AFP-fréttastofuna. Hún hún býr um 100 metra frá húsinu sem hrundi. Hún segir að sprengingin hafi verið gríðarlega hávær. „Við erum með suð í eyrunum.“

Annar nágranni, sem býr í um 50 metra frá húsinu, hljóp strax út og gat ásamt öðrum manni komið tveimur börnum til bjargar. 

Slökkviliðsmenn segja að 11 hafi slasast, þar af fjórir alvarlega. Slökkviliðsmenn eru enn á vettvangi að leita að fólki á lífi í rústunum. 

Talið er að rekja megi sprenginguna til gasleka í húsinu. Þetta segir Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, og lögreglan.

Slökkviliðsmenn leita enn að fólki á lífi í rústunum.
Slökkviliðsmenn leita enn að fólki á lífi í rústunum. AFP
Slökkviliðsmenn sjást hér flytja lík á vettvangi slyssins í dag.
Slökkviliðsmenn sjást hér flytja lík á vettvangi slyssins í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert