Ættingjar Williams eru miður sín

„Hugur okkar er hjá fórnarlambinu, fjölskyldu hennar og vinum. Orð …
„Hugur okkar er hjá fórnarlambinu, fjölskyldu hennar og vinum. Orð geta ekki lýst sorg okkar,“ segir fjölskylda mannsins.

Ættingjar og aðstandendur Matthews Williams, sem réðst á Cerys Marie Yemm aðfaranótt fimmtudags og át hluta andlits hennar, segjast vera miður sín vegna dauða konunnar.

„Hugur okkar er hjá fórnarlambinu, fjölskyldu hennar og vinum. Orð geta ekki lýst sorg okkar,“ segir fjölskylda mannsins.

Lögreglan í þorpinu Argoed, þar sem morðið átti sér stað, beitti rafbyssu á Williams og dó hann síðar um morguninn. Hann var leystur úr fangelsi fyrir rúmum tveimur mánuðum eftir að hafa afplánað helminginn af fimm ára dómi sem hann hlaut fyrir að ráðast á fyrrverandi kærustu sína.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var það aðeins ein lögreglukona sem svaraði útkallinu í fyrstu. Var hún því fyrst á vettvang og kom að Williams þar sem hann var að leggja sér andlit konunnar til munns.

Lögreglukonan og fleiri sem komu á vettvang hafa fengið áfallahjálp á vegum lögreglunnar. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að Williams og Yemm hafi þekkst og ekki séu fleiri grunaðir í tengslum við morðið. 

Fjöldi fólks hefur vottað Yemm virðingu sína. Íbúi í þorpinu segir í viðtali við BBC: „Þorpið er ekki stórt, það vita allir hvað átti sér stað. Þetta hlýtur að vera hræðileg leið til að deyja, þetta er hryllilegt, óbærilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert