Mannætan sá allt í svarthvítu

Cerys Yemm og Matthew Williams.
Cerys Yemm og Matthew Williams. Skjáskot af Daily Mail

Karlmaður í Wales, sem sagður er hafa lagt sér andlit konu til munns, var undir áhrifum örvandi efna er hann framdi hinn viðurstyggilega verknað. Konan lést af sárum sínum og maðurinn sömuleiðis, eftir að hafa verið skotinn með rafbyssu af lögreglu sem kom á vettvang.

Málið hefur vakið mikinn óhug en konan var á lífi er maðurinn misþyrmdi henni. Starfsfólk hótels, sem maðurinn bjó á eftir að hafa verið látinn laus úr fangelsi, kom að honum. Vitni segja að hann hafi þá verið að bíta í andlit konunnar og hafi m.a. kyngt auga hennar.

Nú herma fréttir að Matthew Williams, sem var 34 ára gamall, hafi neytt gríðarlegs magns eiturlyfja eftir að hafa verið látinn laus úr fangelsi tveimur vikum áður en hann réðst á konuna. Kvöldið sem árásin átti sér stað hafi hann tekið lyfjablöndu, sem m.a. innihélt eiturlyf sem kallað hefur verið kallað „miaow-miaow“ eða mkat (e. Mephedrone) en það inniheldur m.a. amfetamín. Efnið er m.a. sagt hafa veruleg áhrif á skynjun neytandans.

Í frétt Daily Mail um málið segir að Williams hafi m.a. sagt vinum sínum að hann heyrði raddir og væri með ofskynjanir. 

Kvöldið örlagaríka fór Williams ásamt vinum sínum og fórnarlambi sínu í heimsókn í hús þar sem hann er sagður hafa drukkið mikið áfengi, reykt kannabis og sprautað sig með „miaow-miaow“. Vitni segja að Williams hafi fengið ofskynjanir og m.a. sagt sjá allt í svarthvítu.

Williams sat inni fyrir að beita þáverandi sambýliskonu sína ofbeldi. Hann hlaut fimm ára dóm en afplánaði aðeins helming hans. Hann bjó á hóteli sem ætlað er föngum á skilorði. Fjölskylda fórnarlambs hans, hinnar 22 ára gömlu Cerys Yemm, fer fram á að það verði rannsakað hvers vegna ekki var fylgst betur með Williams. 

Williams og Yemm yfirgáfu samkvæmið sem þau voru í saman. Vitni segja að Williams hafi boðist til að hringja á leigubíl fyrir hana frá hótelinu sem hann dvaldi á. 

Öskur Yemm frá hótelherbergi hans orðu til þess að öryggisverðir á hótelinu brutust inn í það. Bæði öryggisverðirnir og lögreglumenn sem komu fyrstir á vettvang segja að Williams hafi verið að leggja sér andlit ungu konunnar til munns.

Lögreglukona sem kom fyrst á vettvang, skaut Williams með rafbyssu. Hann lést skömmu síðar. Rannsókn mun leiða í ljós hvort að raflostið hafi banað honum eða hvort að aðrar ástæður liggi að baki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert