Farþegaþota AirAsia talin hafa sprungið

Talið er að farþegaþota AirAsia, sem fórst í Jövuhafi í lok síðasta mánaðar, hafi sprungið þegar hún féll í hafið. Þetta sagði SB Supriyadi, yfirmaður hjá indónesísku björgunarsveitunum, á blaðamannafundi í dag.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að um sé að ræða niðurstöður bráðabirgðarannsóknar á braki úr þotunni. Eins og áður hefur komið fram er talið að óveður á svæðinu hafi leikið stórt hlutverk í því að farþegaþotan fórst.

Farþegaþotan fannst eftir mikla leit á hafsbotni í mörgum hlutum. Þá fundust mörg lík fljótandi á yfirborðinu og farangur og aðrir lausamunir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert