Hjónaböndum samkynhneigðra mótmælt

Í frétt AFP segir að fjöldi fólks af rómönskum-amerískum uppruna …
Í frétt AFP segir að fjöldi fólks af rómönskum-amerískum uppruna hafi mætt til mótmælanna. AFP

Þúsundir manna, þar á meðal nokkrir trúarleiðtogar, marséruðu í gær um höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, gegn lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra.

Hópurinn gekk frá alríkishúsinu í Washington að Hæstarétti landsins með spjöld sem m.a. stóð á „Börn þurfa föður og móður“ og „Marsérum fyrir sannleikann“.

Tímasetning mótmælanna er komin til vegna þess að á þriðjudag mun Hæstiréttur Bandaríkjanna fjalla um það hvort einstaklingar af sama kyni hafi stjórnarskrárvarinn rétt til hjónabands. Búist er við að niðurstaða Hæstaréttar liggi fyrir í júní á þessu ári.

Ríkjum í Bandaríkjunum er í sjálfvald sett hvernig lögum um hjónabönd er háttað en 37 af 50 ríkjum hafa leyft hjónabönd samkynhneigðra.

„Samband samkynhneigðra er bandalag, ekki hjónaband“

Í frétt AFP um málið segir að mikill fjöldi fólks af rómansk-amerískum uppruna hafi mætt í gönguna. Þar voru einnig einstaklingar sem eru mótmælendatrúar sem og frá rétttrúnaðarkirkjunni.

„Við munum ekki verða þögguð niður... við erum ekki ein,“ sagði erkibiskupinn Joseph Kurtz, sem fer fyrir kaþólskum biskupum í Bandaríkjunum, við mótmælendurna sem sumir hverjir höfðu ferðast langa vegalengd til þess að sína andstöðu sína við hjónabönd samkynhneigðra.

Hiram Garcia frá Fíladelfíu sagði lögleiðingu hjónabanda samkynhneigðra leiða skapa „guðlaust samfélag“. Carrol Skinner tók í sama streng og sagðist hún hafa mætt í gönguna til þess að senda frá sér skýr skilaboð.

„Samband þeirra er bandalag, ekki hjónaband,“ sagði Skinner.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert