Sími dómarans truflaði réttarhöld

Þýskur dómstóll hefur ómerkt dóm lægra setts dómstóls yfir tveimur mönnum vegna þess að dómarinn í málinu sendi smáskilaboð úr símanum sínum á meðan vitnisburður stóð yfir.

Mennirnir tveir voru dæmdir fyrir aðild að hnífaárás í borginni Frankfurt. Málið verður nú tekið fyrir á nýjan leik.

Dómarinn leit á símann sinn nokkrum sinnum þegar vitnisburðurinn fór fram og sendi tvö smáskilaboð til barnfóstrunnar sinnar. Ástæðan var sú, að sögn dómarans, að réttarhöldin höfðu tafist.

Áfrýjunardómstóllinn sagði að þrátt fyrir að við lifðum nú á öld tækninnar, þar sem notkun á símum og interneti væri nánast takmarkalaus, þá þyrftu dómarar að veita réttarhöldum fulla athygli. “Símar eiga ekki heima í dómssal, það gildir um áhorfendur, lögfræðinga og aðsjálfsögðu líka dómarana,” sagði dómstóllinn.

Hann ráðlagði dómaranum í málinu að gera hlé á réttarhöldum í neyðartilvikum. Einbeitingin þyrfti nefnilega að vera í lagi, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert