Skaut hjálpsamt par til bana

Átján ára piltur myrti par sem stoppaði til að aðstoða hann er bíll hans bilaði í Wyoming. Hann sagði lögreglunni að dóttir parsins hefði hlegið að honum. Því hefði hann skotið þau.

Árásin á Jason Shane og Tana Shane, var gerð í smábænum Pryor á miðvikudag. 24 ára dóttir þeirra var einnig skotin en lifði af og liggur á sjúkrahúsi.

Árásarmaðurinn, Jesus Deniz Mendoza, játaði fyrir lögreglunni að hafa skotið á fjölskylduna með riffli. Hann hafi síðan farið upp í bíl þeirra og ekið af vettvangi.

Hann var handtekinn skömmu síðar.

Dóttirin segir að móðir hennar hafi ákveðið að stoppa og aðstoða mann í vegkantinum. Hann hafi sagst vera bensínlaus. Hún var þá ein í bílnum, fór og sótti eiginmanninn og dótturina og kom við á bensínstöð og ætlaði að kaupa bensín handa unga manninum. Bensínstöðin var hins vegar lokuð.

Þegar þau komu aftur að bíl mannsins dró hann upp byssu, skipaði fjölskyldunni að fara út úr bílnum og krafði þau um peninga. 

Svo skaut hann þau.

Frétt Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert