„Allir byrjuðu að hlaupa“

Mikil ringulreið hefur orðið á götum úti í kjölfar sprenginganna.
Mikil ringulreið hefur orðið á götum úti í kjölfar sprenginganna. AFP

Að minnsta kosti 300 eru slasaðir eftir tvær gríðarlegar sprengingar sem urðu í kínversku borginni Tianjin klukkan 23:30 að staðartíma. Samkvæmt kínverskum miðlum sprakk sprengiefni sem verið var að flytja við höfnina í borginni.

Höggbylgan sem fylgdi sprengingunum var gríðarlega öflug og fann fólk fyrir henni marga kílómetra í burtu. Mynd­band af spreng­ing­unni geng­ur nú um netið, en ekki er ljóst hversu margir létust. Talið er þó að tala látinna gæti verið há. 

Sjá einnig: Gríðarleg sprenging í Kína

Slökkviliðið í Tianjin var kallað út um klukkan 22:50 að staðartíma þegar eldur hafði komið upp. Fyrri prengingin varð svo um fjörtíu mínútum síðar. Síðari sprenging fylgdi á eftir og var enn öflugri. Fjórir slökkviliðsmenn eru slasaðir og tveggja er saknað.

Eyðilegging er gríðarleg í kringum þann stað sem sprengingarnar urðu, og eru fjölmörg hús þar jöfnuð við jörðu. Samkvæmt slökkviliðinu er verið að slökkva eldinn sem sprengingin olli, en tekist hefur að halda honum í skefjum. Þá urðu nærliggjandi svæði rafmagnslaus.

„Þegar sprengingin varð byrjaði jörðin að nötra. Bílar og hús í kring nötruðu og rúður brotnuðu í sumum húsum. Allir byrjuðu að hlaupa,“ sagði Yang, sem varð vitni að sprengingunni, í samtali við breska ríkisútvarpið. „Nú eru allir komnir saman á götum úti.“ 

Tianj­in er fjórða stærsta borg Kína, en rúm­lega 15 millj­ón­ir manna búa í borg­inni sem er í um 100 kíló­metra fjar­lægð frá Pek­ing.

Fjöldi fólks hef­ur birt mynd­ir og skila­boð á Twitter und­ir myllu­merk­inu #tianj­in og ljóst er að áhrif­in eru gríðarleg. 

Sprengingin var gríðarleg.
Sprengingin var gríðarleg. ljósmynd/Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert