Öll sjúkrahús yfirfull

Alls hafa 44 fundist látnir og 520 verið fluttir á sjúkrahús, þar af 66 alvarlega slasaðir, eftir sprengingar á iðnaðarsvæði kínversku borgarinnar Tianjin í gær.

Meðal látinna eru tólf slökkviliðsmenn sem voru að berjast við eldinn sem blossaði upp eftir sprengingarnar. Samkvæmt fréttum kínverskra fjölmiðla eru sprengingarnar raktar til vöruhúss þar sem hættuleg efni eru geymd á hafnarsvæðinu. Myndir frá borginni sýna himininn lýsast upp og hús sem hafa gjöreyðilagst. Öll sjúkrahús borgarinnar eru yfirfull.

Forseti Kína, Xi Jinping, segir að allt verði gert til þess að bjarga fórnarlömbum sprenginganna og að ráða niðurlögum eldsins.

Enn er leitað að fólki í rústunum húsa en talið er að önnur sprengingin hafi jafnast á við þegar 21 tonn af TNT hafi sprungið. Læknar reyna að veita sárum aðstoð á götum úti því ekki er hægt að taka við fleira fólki á sjúkrahúsum borgarinnar. Oft hafa læknarnir ekki upp á annað að bjóða en plástur á sárið þrátt fyrir að hinn sári sé með mikla áverka.

Að sögn sjónarvotta var krafturinn þvílíkur í sprengingunum að hús hrundu eins og spilaborgir, bílar þeyttust hátt í loft upp og engu eirt sem fyrir varð.

„Eldhnötturinn var gríðarlega stór, kannski allt að 100 metra hár,“ segir Huang Shiting, sem býr skammt frá vöruhúsinu.

„Þegar ég heyrði fyrstu sprenginguna þustu allir út og síðan komu fleiri sprengingar. Rúður sprungu og margir innandyra slösuðust og hlupu blóðugir út,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert