Er fjársjóðslest nasista fundin?

Tveir karlmenn, Pólverji og Þjóðverji, hafa tilkynnt yfirvöldum í borginni Walbrzych í suðvesturhluta Póllands að þeir hafi fundið brynvarða járnbrautarlest með fjársjóð innanborðs og farið fram á að fá hlutdeild í honum. Samkvæmt pólskum lögum eiga þeir sem finna týnda fjársjóði í landinu rétt á 10% af verðmæti þeirra.

Fjallað er um málið á fréttavef Daily Telegraph en frá lokum síðari heimsstyrjaldarinar hafa gengið sögur um að þýskir nasistar hafi fyllt lest af verðmætum í borginni Wroclaw, sem þá hét Breslau, undir lok stríðsins og sent hana vestur á bóginn á flótta undan sókn Rússa. Lestin mun hins vegar hafa horfið sporlaust og hafa margir reynt að finna hana síðan.

Samkvæmt pólskum fjölmiðlum segjast mennirnir tveir hafa fundið 152 metra langa brynvarða lest með byssustæðum og farm innanborð af verðmætum málmum. Samkvæmt sögunum um lestina hvarf hún þegar hún hélt inn í fjalllendi á núverandi landamærum Póllands og Tékklands. Haft er eftir sagnfræðingnum Joanna Lamparska að tvær sögur fari reyndar af lestinni. Ein gengur út á að hún sé inni í fjalli en önnur að hún sé einhvers staðar í nágrenni Walbrzych.

Lamparska segir hins vegar engin gögn hafa fundist um tilvist lestarinnar. Fram kemur í fréttinni að hugsanlega hafi það verið með vilja til þess að leyna málinu. Bent hefur verið á að nasistar hafi látið grafa löng göng í fjöll á svæðinu sem nú er suðvesturhluti Póllands. Ekki er vitað hvers vegna þessi göng voru grafin og telja sumir að lestin hafi verið falin þar. Ekki er heldur vitað hvaða fjársjóð kann að vera um að ræða en líklegast talið að hann sé ránsfengur.

Yfirvöld í Walbrzych hafa ekki viljað tjáð sig um málið. Hins vegar hafa þau beðið mennina tvo um að gefa upp staðsetningu lestarinnar til þess að hægt verði að kanna hvort jarðsprengjum hafi verið komið fyrir við lestina til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að komast inn í hana. Haft er eftir Taduesz Slowikowski sem leitað hefur að lestinni hugsanlega hafi lestin fundist en hann efi að fjársjóðurinn sé enn í henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert