Hefja leit að fjársjóðslestinni

Wikipedia

Pólski herinn hefur kallað sprengjusérfræðinga og sérfræðinga í meðferð efnavopna og geislavirkra efna til bæjarins Walbrzych í suðvesturhluta Póllands en talið er að í jarðgöngum í nágrenni bæjarins sé að finna járnbrautarlest frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Tveir karlmenn, þeir Andreas Richter and Piotr Koper, tilkynntu í sumar að þeir hefðu fundið lestina en talið er að hún hafi verið falin í göngunum í lok stríðsins af þýskum nasistum.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Guardian að líklegt sé talið að sprengjum hafi verið komið fyrir við lestina til þess að koma í veg fyrir að óviðkomandi kæmust í hana. Þá er einnig talið hugsanlegt að efnavopn sé að finna í lestinni sem og geislavirk efni. Talið er að sama skapi að finna megi vopn í lestinni og mögulega verðmæta málma. Sögur hafa lengi gengið um að finna megi slíka lest á svæðinu og margar árangurslausar tilraunir verið gerðar til að finna hana.

Haft er eftir Tomasz Smolarz, héraðsstjóra Neðri-Slesíu, að markmiðið sé að tryggja að íbúum á svæðinu stafi engin hætta af því sem hugsanlega sé að finna í jarðgöngunum. Hafist var handa í gær við að tryggja aðstæður á svæðinu með aðstoð sérfræðinganna. Walbrzych var hluti af Þýskalandi fyrir síðari heimsstyrjöldina og hét þá Waldenburg, en er í dag í Póllandi. Nasistar létu grafa fjölmörg göng í fjöllin á svæðinu en ekki er vitað hver tilgangur þess var.

Sagan segir að lest hlaðin dýrum málum hafi verið ekið inn í göngin við lok stríðsins, þegar Þjóðverjar voru á undanhaldi frá herjum Sovétmanna, en aldrei komið aftur út. Engar sannanir hafa þó fundist um að lestin sé raunverulega til. Richter og Koper segjast hafa notað sérstakan radar sem nær í gegnum berg til þess að finna lestina. Þeir hafa gert kröfu um að fá 10% af þeim verðmætum sem kunni að finnast í lestinni í samræmi við pólsk lög.

Fram kemur í fréttinni að yfirvöld séu að rannsaka hvort mennirnir tveir hafi brotið lög með því að nota radarbúnað við leitina án þess að hafa til þess opinbert leyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert