Engin merki um „gulllest“ nasista

Séfræðingar nota ratsjá til þess að leita að merkjum um …
Séfræðingar nota ratsjá til þess að leita að merkjum um gulllest nasista. AFP

Fátt bendir til annars en að þjóðsögur um lest fulla af gulli sem nasistar áttu að hafa falið í Póllandi fyrir herjum Sovétmanna árið 1945 séu nokkuð annað en einmitt það. Pólskur ráðherra sagðist í sumar „99% viss“ um að lestin hefði fundist en rannsakendur segjast engin merki hafa fundið um hana.

Lestin átti að hafa fundist neðanjarðar nærri bænum Walbryzch. Aðstoðarlandbúnaðarráðherrann Piotr Zuchowski sagði í sumar að ratsjármælingar hafi nær sannfært hann um að þýsk herlest væri grafin þar. Ríkisstjóri Neðri-Slesíu benti hins vegar fljótlega á að engar frekari vísbendingar hafi fundist um meinta lest þá frekar en í fyrri skipti sem slíku hefur varið haldið fram.

Niðurstöður hóps rannsakenda sem hefur leitað á svæðinu sem kynntar voru í dag renna stoðum undir álit ríkisstjórans. Hvorki hefur fundist tangur né tetur af lestinni, hvað þá gulli eða gimsteinum sem í henni eiga að vera faldir. Þó segja þeir að mögulega geti neðanjarðargöng verið til staðar en nasistar létu stríðsfanga sína grafa fleiri kílómetra ganga á meðan á hernámi þeirra stóð.

Þjóðsagan segir að nasistar hafi fyllt lestina af gulli í borginni Wroclaw í þann mund sem Rauði herinn sótti fram á síðustu dögum heimsstyrjaldarinnar. Fullyrðingar um að lestin hefði fundist fóru aftur í kreik fyrr á þessu ári eftir að tveir menn sögðu yfirvöldum að þeir vissu hvar hún væri niður komin. Þá vitneskju hefðu þeir frá játningu manns sem átti að hafa tekið þátt í að fela lestina á dánarbeði hans.

Frétt breska ríkisútvarpsins BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert