Bar drukknað ungbarnið í örmum sér

Martin tók drukknað ungabarnið í fang sér líkt og það …
Martin tók drukknað ungabarnið í fang sér líkt og það væri lifandi. Sex tímum áður var það á lífi, segir hann. Skjáskot/Washington Post

Ljósmynd sem sýnir þýskan hjálparsveitastarfsmann bera drukknað ungbarn í örmum sér var í dag dreift af mannúðarsamtökum, sem vonast til að myndin fái yfirvöld í Evrópu til að tryggja öruggan flutning hælisleitenda.

Óttast er að hundruð hælisleitenda hafi drukknað í Miðjarðarhafinu í síðustu viku, en ungbarnið sem ekki virðist vera meira en eins árs, var dregið upp úr sjónum sl. föstudag eftir að bát, sem það hafði verið um borð í, hvolfdi.

Ítalskt herskip kom með lík 45 manna og 135 einstaklinga sem tekist hafði að bjarga til bæjarins Reggio Calabria á Ítalíu á sunnudag að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Þýsku mannréttindasamtökin Sea-Watch, dreifðu myndinni af barninu til fjölmiðla, en Sea-Watch eru með björgunarbát á ferð á hafinu milli Líbíu og Ítalíu.  

Í tölvupósti björgunarsveitamannsins, sem aðeins gaf upp skírnarnafn sitt, Martin, sagðist hann hafa komið auga að barnið í vatninu „eins og dúkku með hendurnar teygðar upp úr.“

„Ég tók um handleggi barnsins og dró léttan líkama þess í fang mér, rétt eins og það væri enn lifandi …. Það hélt örsmáum fingrum sínum út í loftið og sólin skein í björt, vingjarnleg og líflaus augu þess,“ sagði Martin.

Martin, sem er er þriggja barna faðir og tónlistarþerapisti, segist hafa byrjað að syngja til að veita sjálfum sér huggun og til að tjá með einhverjum hætti, þessa sáru stund. „Sex tímum áður var þetta barn lifandi.“

Líkt og ljósmyndin af hinum þriggja ára sýrlenska Aylan sem lá líflaus á strönd í Tyrklandi á síðasta ári, þá veitir myndin af ungbarninu nú mannlegri ásýnd af dauða þeirra 8.000 manna sem hafa farist á Miðjarðarhafinu frá því í byrjun árs 2014.

Lítið er vitað um ungbarnið, sem var samstundis afhent ítalska sjóhernum, og er m.a. ekki vitað hvort um dreng eða stúlku var að ræða, né heldur hvort foreldrar barnsins séu í hópi þeirra sem komust af.

„Í kjölfar þessa hörmulegu atburða er orðið enn augljósara að ákall evrópskra stjórnmálamanna um að það þurfi að hindra frekari dauðsföll á Miðjarðarhafinu er lítið annað en orðin tóm,“ sagði í yfirlýsingu Sea-Watch.

„Ef við viljum ekki sjá svona myndir þá verðum við að hætta að framleiða þær,“ sagði í yfirlýsingunni og hvatti Sea-Watch til þess að Evrópuríki heimili hælisleitendum að ferðast um álfuna með löglegum hætti, svo hægt sé að binda endi á starfsemi smyglara og forða þar með frekari hörmungum.

Talið er að a.m.k. 700 hælisleitendur hafi drukknað á leið sinni yfir Miðjarðarhafið í síðustu viku, en ekki hafa áður verið jafnmargir hælisleitendur á ferðinni milli Líbíu og Ítalíu það sem af er þessu ári að sögn Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert