Trump gæti hagnast á Brexit-öflunum

Líkt og sumir stuðningsmenn úrgöngu Breta úr ESB hefur málflutningur …
Líkt og sumir stuðningsmenn úrgöngu Breta úr ESB hefur málflutningur Donalds Trump einkennst af andúð á innflytjendum. AFP

Bernie Sanders varar við því að sama óánægja almennings og olli því að Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu gæti fengið fjölda Bandaríkjamanna til þess að styðja Donald Trump. Hann fullyrðir að hagkerfi heimsins virki ekki fyrir meirihluta fólks í Bandaríkjunum og annars staðar.

„Gæti þessi höfnun á núverandi mynd efnahagskerfis heimsins átt sér stað í Bandaríkjunum? Svo sannarlega,“ skrifar Sanders í grein sem birtist í New York Times þar sem hann færir rök fyrir því að fjöldi Bandaríkjamanna sem stendur stuggur af alþjóðavæðingu sé móttækilegur fyrir skilaboðum Trump um pólitíska einangrunarhyggju og efnahagslega verndarstefnu.

Varar Sanders Demókrataflokkinn við því að Trump geti hagnast á sömu öflum og tryggðu þeim sem vilja að Bretar yfirgefi Evrópusambandið sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðustu viku.

„Milljónir bandarískra kjósenda, eins og stuðningsmenn úrgöngu, eru skiljanlega reiðar og óánægðar með þau efnahagslegu öfl sem eru að eyðileggja millistéttina,“ skrifar Sanders.

Því þurfi Demókrataflokkurinn að taka skýra afstöðu með þeim sem eiga erfitt uppdráttar og skapa nýtt efnahagskerfi innanlands og á alþjóðavísu sem gagnast öllum en ekki aðeins nokkrum milljarðamæringum.

Andúð á innflytjendum hefur verið áberandi í málflutningi Trump í kosningabaráttunni vestra eins og í Bretlandi hjá sumum stuðningsmönnum úrgöngu úr Evrópusambandinu. Sanders segir ljóst að gera þurfi raunverulegar breytingar á efnahagskerfi heimsins.

„Aftur á móti þurfum við ekki breytingar sem byggja á lýðskrumi, fordómum og andúð á innflytjendum sem birtist svo mikið í málflutningi úrgöngumanna og er þungamiðja boðskaps Donalds J. Trump,“ skrifar öldungadeildarþingmaðurinn frá Vermont.

Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður frá Vermont.
Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður frá Vermont. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert