Fjórtán látnir eftir snjóflóðið

Þrír hvolpar sem fundust á lífi hafa gefið björgunarmönnum von.
Þrír hvolpar sem fundust á lífi hafa gefið björgunarmönnum von. AFP

Staðfest hefur verið að í það minnsta 14 manns eru látnir eftir að snjóflóð féll á ítalskt hótel á miðvikudag. Björgunaraðgerðir standa enn yfir en 15 er enn saknað, nú á sjötta degi leitarinnar.

Ellefu starfsmenn og gestir lifðu af hamfarirnar. Tveir þeirra voru úti þegar snjóflóðið skall á byggingunni en níu aðrir, þar á meðal fjögur börn, fundust á lífi á föstudagsmorgun.

Lík sex manna hafa fundist undanfarinn sólarhring og ólíklegt þykir að nokkur finnist á lífi úr því sem komið er.

Björgunarmenn á svæðinu neita þó að gefa upp vonina, sem jókst í gær eftir að þrír hvolpar fundust heilir á húfi í rústunum.

Ítölsk yfirvöld rannsaka á sama tíma þá atburðarás sem átti sér stað fyrir snjóflóðið, til að athuga hvort hægt hefði verið að forðast þennan harmleik.

Frétt mbl.is: Hafði varað yfirvöld við ástandinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert