Neitar að svara hvaðan skipunin kom

Sprengjan sem varpað var er risavaxin. Hér má sjá hana …
Sprengjan sem varpað var er risavaxin. Hér má sjá hana notaða í tilraunum árið 2003. Hún hefur aldrei verið notuð í hernaði áður. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti neitar að svara því hvort að hann hafi persónulega gefið grænt ljós á að varpa stærstu sprengju sem her hans býr yfir á skotmörk er tengjast Ríki íslams í Afganistan í dag. Sprengjan  er um tíu tonn á þyngd og hefur verið kölluð „móðir allra sprengja“. Hún var þróuð í Íraksstríðinu en þetta er í fyrsta sinn sem henni er beitt í hernaði.

Flutningaflugvél flutti sprengjuna að skotmörkunum sem voru m.a. íverustaðir í jarðgöngum. „Allir vita nákvæmlega hvað gerist. Svo, það sem ég geri er að veita her okkar leyfi. Við höfum gefið þeim heimildir og það er það sem þeir eru að gera,“ sagði Trump er hann var spurður hvort hann hefði heimilað árásina.

Engar fréttir hafa enn borist af skemmdum eða mannfalli á svæðinu. Ríkisstjóri héraðsins þar sem árásin var gerð, Esmail Shinwari, segir að sprengingin hafi verið sú stærsta sem hann hafi séð. Hann segir að eldsúlur hafi stigið langt upp í loft. „Við vitum ekki um mannfall enn sem komið er en þar sem [Ríki íslams] er fyrirferðarmikið á svæðinu þá höldum við að margir vígamenn þeirra hafi fallið.“

Beint á jarðgöng og hella vígamannanna

Samkvæmt heimildum CNN-fréttastofunnar var það hershöfðingi Bandaríkjahers í Afganistan, John Nicholson, sem heimilaði árásina. Hvíta húsið fékk að vita af árásinni fyrirfram. 

Trump hefur veitt yfirmönnum hersins auknar heimildir til að framkvæma, að eigin frumkvæði, árásir á skotmörk. Trump segir að það muni skipta sköpum í baráttunni gegn Ríki íslams.

Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sean Spicer, staðfesti fyrr í dag að árásin hefði átt sér stað og það gerði varnarmálaráðuneytið sömuleiðis. Spicer sagði að árásinni hefði verið beint á jarðgöng og hella sem vígamenn Ríkis íslams nota til að ferðast um, nú þegar verulega hafi dregið úr styrk þeirra. 

Sprengjan heitir GBU-43/B Massive Ordnance Air Blast Bomb (MOAB). Tilraunir með hana voru fyrst gerðar árið 2003. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert