Bannað að klæðast Barcelona treyju

Bannað að klæðast treyju Messi og félaga í Sádí Arabíu.
Bannað að klæðast treyju Messi og félaga í Sádí Arabíu. AFP

Íbúum Sádí-Arabíu hefur nú verið bannað að klæðast hinum rauða og bláa búningi knattspyrnuliðsins Barcelona. En framan á búningum Barcelona gefur að líta merki flugfélags Katar (Qatar Airways) og er það fyrirtæki nú komið á svartan lista í Sádí-Arabíu.

Ástæðan eru deilur á milli Katar og fjögurra annarra arabaríkja; Sádí-Arabíu, Egyptalands, Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. En þessi fjögur ríki tilkynntu á dögunum að þau myndu slíta tengsl við Katar. 

Viðurlögin við því að klæðast Barcelona treyju í Sádí-Arabíu geta verið allt að 1,5 milljón íslenskra króna og 15 ára fangelsisvist, samkvæmt fréttasíðunni Middle East Monitor. Spænska deildin er gríðarlega vinsæl í Mið-Austurlöndum og þá eru Barcelona og Real Madrid vinsælustu liðin. Þar af leiðandi má búast við því að þessi tilskipun snerti marga, og þá sérstaklega börn og unglinga.

Flugfélagið er eitt af mörgum fyrirtækjum sem eru komin á svartan lista í Sádí-Arabíu vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert