Í fermingarveislu eftir morðið og svo úr landi

Nils Olav Bakken var 49 ára gamall, en hann hlaut …
Nils Olav Bakken var 49 ára gamall, en hann hlaut fjölda hnífstunga áður en hann var brenndur á báli, þá enn á lífi. ljósmynd/Norska lögreglan

Sjö barna móðir á fimmtugsaldri og tvítugur sonur hennar eru meðal þriggja sakborninga sem hlutu samtals 58 ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Gjøvik í Oppland-fylki í Noregi síðdegis í dag fyrir hrottalegt morð í skóglendi við Veståsen í sveitarfélaginu Søndre Land í sama fylki í september í fyrra, bálmorðið svokallaða (n. båldrapet), en fórnarlambið, þroskaheftur 49 ára gamall karlmaður, hlaut fjölda hnífstunga áður en hann var brenndur á báli, þá enn á lífi samkvæmt niðurstöðu krufningar.

Mæðginin eru ekki nafngreind samkvæmt ákvörðun héraðsdóms en þriðji sakborningurinn, Odd Raymond Olsen, 36 ára, hlaut 20 ára fangelsi fyrir sinn þátt í málinu.

Kólnandi slóð

Það var 2. september í fyrra sem skaðbrennt lík karlmanns fannst í skóginum við Veståsen og var það svo illa farið að nokkra daga tók að bera kennsl á hinn myrta, Nils Olav Bakken, sem hafði orðið fyrir fjölda hnífstunga áður en bensíni var hellt yfir hann og kveikt í en norska dagblaðið VG hefur fjallað ítarlega um málið.

Rannsóknarlögreglan Kripos hóf þá rannsókn sem reyndist langvinn og höfðu rannsakendur í fyrstu ekkert að styðjast við og leit jafnvel út fyrir á tímabili að hin seku kæmust upp með ódæðið en konan er fyrrverandi kærasta Olsen sem hlaut þyngsta dóminn og taldist aðalmaður í brotinu samkvæmt dómnum.

Olsen tók sér tíma til að mæta í fermingarveislu áður en þrenningin hélt utan í frí og slóð lögreglunnar tók að kólna hratt og örugglega.

Fjöldi vitna við rannsókn málsins var 130 en fæstir vitnisburðanna vörpuðu nokkru ljósi á atburðarásina svo heitið gæti og voru kenningar Kripos um ástæðu þessa hrottafengna morðs af ýmsum toga en farið var að skoða mögulega innheimtu handrukkara, fíkniefnaskuld, morð af kynferðislegum toga, hugsanlegar deilur um arf og að lokum að einhver hefði hreinlega farið mannavillt og myrt aðra manneskju en ætlunin var.

Keypti bensín á könnu

Það var ekki fyrr en í byrjun nóvember í fyrra, eftir tveggja mánaða þrotlausa rannsóknarvinnu, að rofaði til í rannsókn Kripos. Þá hafði margra sólarhringa vinna við að fara í gegnum upptökur tuga eftirlitsmyndavéla í þeim hluta fylkisins, þar sem líkið fannst, loksins skilað því að upptaka frá bensínstöð Shell í bænum Dokka sýndi ökumann svartrar BMW-bifreiðar fylla könnu af bensíni og setja hana í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Í baksæti bifreiðarinnar sátu kona og annar karlmaður.

Lögreglan bar þegar kennsl á Odd Raymond Olsen af upptökunni enda var hann henni ekki með öllu ókunnugur eftir fjölda refsidóma á liðnum árum, þó flesta fyrir smærri afbrot á borð við þjófnað, ofsaakstur og fleiri umferðarlagabrot.

Þar með var talið hafið yfir vafa að með honum í bílnum væru fyrrverandi kærastan hans og líklega eitt barna hennar. Dómari veitti heimild fyrir hlerun síma fyrrverandi parsins 8. nóvember og því næst hringdi lögreglan í Olsen og boðaði hann til yfirheyrslu vegna gruns um afbrot 2. september.

Líkt og við var að búast hringdi Olsen í fyrrverandi kærustuna örfáum mínútum eftir símtal lögreglunnar og þau hófu að koma sér saman um atburðarás en þar kom meðal annars fermingarveislan við sögu og fríið erlendis.

Norska lögreglan.
Norska lögreglan. AFP

Lögregla á traktor dulbúin sem snjómokstursmenn

Parið fyrrverandi ákvað að hittast þegar til að samræma framburð sinn og skyldi sá fundur eiga sér stað á Fluberg-brúnni. Lögregla ákvað að handtaka þau þegar þar á staðnum og koma þeim þar með í opna skjöldu áður en framburður þeirra yrði soðinn saman. Til þess að komast að hinum grunuðu án þess að vekja eftirtekt dulbjuggu lögreglumenn sig sem snjómokstursteymi frá sveitarfélaginu og siluðust á dráttarvél með snjómokstursskóflu yfir brúna við upphaf fundarins.

Þar með voru hin grunuðu handtekin og játuðu þau að tvítugur sonur konunnar hefði verið með þeim kvöldið örlagaríka. Við yfirheyrslur bentu hin grunuðu öll hvert á annað og varð fljótlega ljóst að lögregla og Thorbjørn Klundseter saksóknari ættu ærið starf fyrir höndum við réttarhöldin sem í hönd fóru.

„Hömlulaus illska“

Klundseter gekk hreint til verks við saksókn sína fyrir stútfullum dómssal Héraðsdómsins í Gjøvik og sagði „hömlulausa illsku“ hafa stjórnað gerðum parsins fyrrverandi þegar þau sammæltust um að ráðast á fórnarlamb sitt, Nils Olav Bakken, og ráða því bana en Olsen taldi sig eiga sitthvað sökótt við Bakken vegna fyrri samskipta hans við sameiginlega vini þeirra. Um hreina aftöku hefði verið að ræða, fullyrti saksóknari. Olsen og konan bentu hvort á annað við réttarhöldin en fljótt þótti sýnt fram á hver teldist aðalmaður í verknaðinum en það var Olsen:

„Olsen framkvæmdi þann verknað sem beinlínis varð Bakken að bana og þrátt fyrir að ekki þyki sýnt fram á það fyrir rétti að morðið hafi verið skipulagt fyrir fram telst þó um svo mikla skipulagningu að ræða að jaðrar við morð að yfirlögðu ráði. Þetta gerir það að verkum að rétturinn telur refsiábyrgð Olsens ganga nokkuð framar en hinna tveggja,“ segir í dómsorði en þríeykið játaði við aðalmeðferð málsins að Olsen hefði spurt hin tvö „Eigum við að taka hann?“ og þau ekki mótmælt heldur aðstoðað Olsen við ódæðið svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa að um samverknað væri að ræða í málinu.

Olsen hefur þegar ákveðið að áfrýja þeim 20 ára dómi sem hann hlaut í dag, segir norska ríkisútvarpið NRK frá í kvöld, en ekki er enn ljóst hvort mæðginin hyggist una sínum dómum, 19 ára fangelsisvist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert