Vann í lottó og sagði strax upp vinnunni

AFP

Mavis Wanczyk er 53 ára gömul tveggja barna móðir frá Massachusetts sem datt heldur betur í lukkupottinn. Hún tryggði sér stærstu vinningsfjárhæð í happdrætti sem nokkurn tímann hefur gengið út í Norður Ameríku og var ekki lengi að segja upp vinnunni eftir að ljóst var að vinningurinn var hennar.

Tölurnar hennar, 6, 7, 16, 23, 26 og 4, komu upp úr pottinum en upphæðin sem hún vann nemur rúmum 758 milljónum Bandaríkjadala, rúmum 81 milljarði íslenskra króna. Tölurnar segist hún hafa valið út frá afmælisdögum fjölskyldunnar.

Borgar upp bílalánið

Í samtali við blaðamenn vestanhafs sagðist Wanczyk strax hafa sagt upp vinnunni. „Það fyrsta sem mig langar til að gera núna er að halla mér aftur og slaka á,“ sagði hún. Stærri pottur hefur einu sinni áður gengið út í Ameríku, það var árið 2016 en þá skiptu þrír vinningshafar með sér pottinum.

Wanczyk hefur starfað í 32 ár á heilsugæslu en var ekki lengi að segja upp eftir að ljóst var að vinningurinn var hennar. „Ég er búin að hringja í þá og segja þeim að ég komi ekki aftur,“ sagði Wanczyk. „Nú ætla ég að fela mig í rúminu mínu.“

Aðspurð hvort hún ætli að eyða verðlaunafénu í einhvern munað eins og nýjan bíl segist hún ekki þurfa þess þar sem hún hafi keypt nýjan bíl fyrir innan við ári. Hún ætli aftur á móti að greiða upp bílalánið.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert