Menguðustu svæði Evrópu

Á þessari mynd, sem Evrópska geimferðarstofnunin birti og tekin var …
Á þessari mynd, sem Evrópska geimferðarstofnunin birti og tekin var í október, sést mengunarský yfir Po-dalnum á Ítalíu. AFP

Stórborgir þar sem umferðarteppur eru viðvarandi, kolavinnslusvæði og önnur iðnaðarsvæði sem umlukin eru fjöllum eiga ýmislegt sameiginlegt. Menguðustu staðir Evrópu sjást greinilega utan úr geimnum flesta sólríka daga. 

Víðsvegar um álfuna búa og starfa tugir milljóna manna á svæðum þar sem loftmengun er yfir viðmiðunarmörkum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.

En mengunarmagnið sem og mengunarefnin eru misjöfn milli borga og stundum milli einstakra húsa innan þéttbýlisstaða, allt eftir því hvort þau standi við umferðarþungar götur eða eru umvafin grænum svæðum. Þetta gerir það að verkum að næstum því  ómögulegt er að segja með vissu hver er mengaðasta borg Evrópu. 

Borgin Skopje í Makedóníu er ein mengaðasta borg Evrópu.
Borgin Skopje í Makedóníu er ein mengaðasta borg Evrópu. AFP

Það er hins vegar hægt að greina ákveðin svæði og flokka þau eftir þeim mengandi efnum sem þar finnast í andrúmsloftinu.

 Umhverfisstofnun Evrópu, EEA, hefur útbúið kort sem sýnir að Po-dalur á Ítalíu er þakinn hvítu skýi loftmengunar allt frá Lígúríuhafi í vestri til Adríahafs. Alparnir í norðri gera það að verkum að mengunin safnast þar saman. 

Í mörgum borgum á þessu svæði er mikið magn svifryks, örsmárra og hættulegra agna í andrúmsloftinu. Samkvæmt viðmiðunum WHO eiga þessar smáu svifryksagnir að meðaltali ekki að fara yfir 10 míkrógrömm á hvern rúmmetra af lofti á ári. Stuðlar Evrópusambandsins eru aðeins rýmri en samkvæmt þeim skal magnið ekki vera yfir 25 míkrógrömm á hvern rúmmetra af lofti. Engu að síður fer magnið reglulega yfir þessi viðmið í nokkrum löndum álfunnar. 

Fínt svifryk er helsta orsök ótímabærra dauðsfalla innan Evrópusambandsins. Árið 2016 mátti rekja 391 þúsund dauðsföll til þessara agna, þar af 60 þúsund á Ítalíu einni saman. 

Sóldýrkendur á franskri strönd. Iðnaðarsvæði handan fjarðarins.
Sóldýrkendur á franskri strönd. Iðnaðarsvæði handan fjarðarins. AFP

Ítölsku borgirnar Torínó og Mílanó, svo dæmi sé tekið, glíma einnig við annars konar mengun. Þar er magn ósons og nitursoxíðs í andrúmsloftinu hátt, aðallega vegna útblásturs bensín- og dísilvéla. 

Samkvæmt Loftgæðaskránni (e. Air Quality Life Index), sem vísindamenn við Háskólann í Chicago halda saman, minnka lífslíkur fólks um hálft ár að meðaltali við það eitt að búa í Po-dalnum. 

Suðurhluti Póllands er annað svæði í Evrópu þar sem mengun er mikil. Þar eru mörg orkuver knúin af kolabrennslu. Kraká var önnur mengaðasta borg Evrópu árið 2016 hvað svifryk varðar. Þar fór magn þess yfir 38 míkrógrömm í rúmmetra af andrúmslofti. Pólska borgin Katowice fylgdi á hæla henni. Í samanburði má benda á að mengun á sumum svæðum í norðurhlutum Kína og Indlands er þrefalt meiri.

Mengun yfir borginni Marseille í suðurhluta Frakklands.
Mengun yfir borginni Marseille í suðurhluta Frakklands. AFP

Yrði hægt að draga úr þessari miklu mengun í pólsku borgunum, svo hún yrði undir viðmiðunarmörkum Alþjóða heilbrigðismálastofnunnar, myndu lífslíkur hvers íbúa aukast um 1,5 ár að meðaltali. 

Í öllum borgum Evrópu fer loftmengun á hverjum tíma árs yfir viðmið í loftgæðum vegna bílaumferðar. Samkvæmt gögnum frá umhverfissamtökunum Greenpeace var svifryksmengun mest í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu, árið 2018. Hún var í 21. sæti yfir menguðustu borgir heims það ár. Hvað varðar aðrar Evrópuborgir fylgdu Varsjá, Búkarest, Prag, Bratislava, Búdapest, París og Vín þar á eftir.

Útblástur frá bílum hefur mikið að segja hvað mengun í …
Útblástur frá bílum hefur mikið að segja hvað mengun í evrópskum borgum varðar. AFP

Mikla loftmengun í borgum í Mið-Evrópu má að rekja beint til notkunar kola við rafmagnsframleiðslu. Í mörgum borgum í Vestur-Evrópu fer magn nitursdíoxíðs (NO2) yfir viðmiðunarmörk Evrópusambandsins. London er þar efst á blaði, en þar á eftir fylgja París, Stuttgart, Munchen, Marseille, Lyon, Aþena og Róm. 

Jafnvel í Suður-Evrópu, þar sem vindar hreinsa frekar loftið en víða annars staðar, mælist loftmengun töluverð, m.a. af völdum ósóns. Mest er mengunin meðfram Miðjarðarhafinu á vorin og sumrin er hundruð þúsunda sóldýrkenda sækja á þær slóðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert