N-Kórea skaut í átt að suðurkóreskum eyjum

Norður-Kóreumenn gerðu stórkotaárás í átt að tveimur suðurkóreskum eyjum snemma í morgun, að sögn varnarmálaráðuneytis Suður-Kóreu.

Íbúum beggja eyjanna var gert að yfirgefa heimili sín og ferjusiglingar voru stöðvaðar á sama tíma og Suður-Kóreumenn undirbjuggu sjóhersæfingu til að bregðast við árásinni, sem er ein sú alvarlegasta á Kóreuskaganum síðan Norður-Kórea skaut á eina af sömu eyjum árið 2010.

Eyjan Yeonpyeong árið 2018.
Eyjan Yeonpyeong árið 2018. AFP/Ed Jones

Áður en árásin í morgun var gerð hafði Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, ítrekað sagt að þjóðin væri búin undir stríð gegn Suður-Kóreu og Bandaríkjunum.

Að sögn suðurkóreska varnarmálaráðuneytisins var „yfir 200 skotum” hleypt af í morgun skammt frá eyjunum Yeonpyeong og Baengnyeong.

„Þetta er ögrun sem ógnar friði á öllum Kóreuskaganum,” sagði ráðuneytið.

Suðurkóreskt strandgæsluskip við strendur Baengnyeong.
Suðurkóreskt strandgæsluskip við strendur Baengnyeong. AFP/Danny Kim

Kínverjar hafa kallað eftir því að allir sem tengjast málinu hafi hemil á sér og grípi ekki til neinna aðgerða sem auki spennuna á svæðinu.

Eyjan Yeonpyeong.
Eyjan Yeonpyeong. AFP/Ed Jones
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert