Flugmennirnir sofnuðu báðir

Flugfélagið Batik Air hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
Flugfélagið Batik Air hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Ljósmynd/Wikimedia

Samgönguráðuneyti Indónesíu hyggst hefja rannsókn á flugfélaginu Batik Air eftir að tveir flugmenn þess sofnuðu í miðju flugi.

Flugstjóri og aðstoðarflugstjóri hans voru sofandi samtímis í um það bil 28 mínútur í flugi frá Sulawesi-eyju til höfuðborgarinnar Jakarta 25. janúar.

Fréttamiðillinn CNA greinir frá því að annar flugmannanna hafi ekki hvílt sig nægilega nóttina fyrir flugið. Um hálftíma eftir flugtak hafi flugstjórinn beðið um leyfi aðstoðarflugstjórans til að hvíla sig um stund. Hinn síðarnefndi hafi þá tekið við stjórn vélarinnar en einnig sofnað.

Vikið tímabundið úr starfi

Um 28 mínútum síðar vaknaði flugstjórinn, sem vakti í kjölfarið samstarfsmann sinn og kom vélinni á rétta braut. 153 farþegar vélarinnar og fjórar flugfreyjur voru ómeidd er vélin lenti, en flugið var tvær klukkustundir og 35 mínútur.

Samgönguráðuneytið ávítir flugfélagið harðlega vegna atviksins og hvetur flugfélög til að huga betur að hvíldartíma starfsfólks.

Í yfirlýsingu sem Batik Air sendi frá sér í dag kemur fram að hvíldartími hjá flugfélaginu sé fullnægjandi og að það taki allar ráðleggingar um öryggi til greina. Segir einnig að flugmönnunum tveimur hafi verið vikið tímabundið úr starfi, en þeir eru 32 og 28 ára gamlir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert