Árni Magnússon: Niðurstaðan hlýtur að valda sveitarstjórnarmönnum vonbrigðum

Árni Magnússon greiddi atkvæði í Hveragerði í dag þar sem …
Árni Magnússon greiddi atkvæði í Hveragerði í dag þar sem hann er búsettur. mbl.is/Sverrir

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, sagði að niðurstaðan í sameiningarkosningunum í dag hefði komið nokkuð á óvart, m.a. í ljósi þess að skoðanakannanir hafi sýnt að meirihluti landsmanna sé meðmæltur frekari sameiningu sveitarfélaga. Þá hljóti niðurstaðan að vera sveitarstjórnarmönnum talsverð vonbrigði en tillögur um sameiningu sveitarfélaga voru allar felldar nema ein þótt kjósa þurfi aftur á tveimur svæðum. Árni segir, að nú sé það sveitarstjórnarmanna sjálfra að hafa forgöngu um frekari sameiningartillögur, ríkið muni ekki hafa forgöngu um slíkt aftur í bráð.

„Þetta hlýtur að vera sveitarstjórnarmönnum ákveðin vonbrigði en þetta er niðurstaða lýðræðislegra kosninga og að sjálfsögðu verða menn að una við hana," sagði Árni.

Hann sagði að sín skoðun væri sú, að þessi niðurstaða þýddi að nú sé málið einfaldlega í höndum sveitarstjórnarmanna. „Hvort eftirleikurinn verður eitthvað svipaður og árið 1993 þar sem sveitarfélögunum fækkaði gríðarlega í kjölfar sameiningarkosninga, er í sjálfu sér á þeirra valdi. Ég hef ekki trú á því að ríkið leiði svona verkefni í bráð. Okkar hlutverk var að leiða verkefnið fram samkvæmt beiðni sveitarstjórnarmanna, og nú er því hlutverki lokið."

Búið var að ákveða að leggja 2,4 milljarða til sameiningarframlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og átti m.a. að verja þeim fjármunum til að byggja upp ný sveitarfélög og styrkja innviði þeirra. Árni sagði, að sennilega væri búið að verja um 100 milljónum króna af þeirri upphæð til kynningarinnar, sem hefði verið í höndum heimamanna. „En það er auðvitað ljóst miðað við þetta að frekari fjármunir verða ekki lagðir til þess," sagði Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert