Sameining sveitarfélaga í Eyjafirði felld

Tillaga um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði var felld í í dag. Íbúar sjö sveitarfélaga af 9, þar á meðal íbúar á Akureyri, felldu tillöguna en hún var samþykkt í Ólafsfirði og á Siglufirði. Alls sögðu 58,3% þeirra sem greiddu atkvæði í sveitarfélögunum 9 nei, en 40% sögðu já. Mest var andstaðan í Grýtubakkahreppi þar sem 99% þeirra sem komu á kjörstað greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Á Akureyri greiddu 2747 atkvæði sem er 22,9% kjörsókn. 1191 sögðu já eða 43,36% en 1489 sögðu nei eða 54,2%.

Í Grýtubakkahreppi greiddu 210 atkvæði eða 82% atkvæðisbærra manna. Aðeins tveir samþykktu sameiningartillöguna en 208 felldu hana eða rúmlega 99%.

Sameiningartillagan var samþykkt á Siglufirði. Þar var 60,8% kjörsókn. 64,4% sögðu já en 34,7% sögðu nei. Tillagan var einnig samþykkt í Ólafsfirði. Þar sögðu 55,3% já en 43,2% nei. Kjörsókn var 68,2%.

Tillagan var hins vegar felld í Svalbarðsstrandarhreppi. Þar var kjörsókn 71,6%. 25,7% sögðu já en 73,7% sögðu nei.

Í Arnarneshreppi var sameiningartillagan einnig felld. Þar greiddu 98 atkvæði sem var 77,78% kjörsókn. 34, eða 34,69%, sögðu já en 64 eða 65,31%, sögðu nei.

Í Eyjafjarðarsveit var kjörsókn 61,4%. 57 eða 13,7% sögðu já en 358, eða 86,1%, sögðu nei.

Í Dalvíkurbyggð var tillögunni hafnað með afgerandi hætti. Þar var kjörsókn 64,9%. Já sögðu 35,4% en nei 63%. 1,4% atkvæðaseðla voru ógild eða auð.

Í Hörgárbyggð var kjörsókn 65,54%. 11,5% samþykktu sameiningu en 88,5% voru henni andvíg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka