Rannsóknarheimildir lögreglu verði auknar

Norrænir vítisenglar hafa stundum reynt að komast inn í landið.
Norrænir vítisenglar hafa stundum reynt að komast inn í landið.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að unnið væri að frumvarpi um að auka möguleika lögreglu á að rannsaka starf hópa, sem grunaðir eru um skipulagða glæpastarfsemi.

Sagði Ögmundur, að nýjustu heimildir frá lögreglunni hermdu, að skipulögð glæpastarfsemi væri að færast í vöxt hér á land, sé orðin umfangsmeiri og brotin alvarlegri. Um væri að ræða fíkniefnasölu, mansal, peningaþvætti, vopnasmygl og vopnasölu og fjárkúgun af grófustu sort.

Ögmundur sagði, að greiningardeild ríkislögreglustjóra hefði nýleg gefið út hættumat vegna vísbendinga um vaxandi spennu í íslenskum undirheimum. Vaxandi hætta sé á að til átaka og uppgjörs komi í íslenskum undirheimum um yfirráð yfir fíkniefnamarkaði og öðrum sviðum skipulagðrar glæpastarfsemi. Einkum sé horft til þess að vélhjólagengið MC Iceland hljóti viðurkenningu sem fullgild deild innan Vítisengla og nýr hópur íslenskra brotamanna hafi verið myndaður gagngert til að bregðast við breyttri stöðu í íslenskum undirheimum.

Verið var að  ræða utan dagskrár á Alþingi í dag um leiðir til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpastarfsemi hérlendis en Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var málshefjandi. Hvatti hún til þess að lögregla fái í hendur auknar heimildir til forvirkra rannsókna til að berjast gegn því að glæpaflokkar á borð við Vítisengla skjóti hér rótum.

Ögmundur sagðist hafa verið í hópi þeirra, sem vildi fara fram af varfærni varðandi svonefndar forvirkar rannsóknarheimildir.  Lögreglan hafi hins vegar bent á að núverandi rannsóknarheimildir séu of þröngar og torveldi henni að bregðast við vaxandi starfsemi glæpahópa. Vel sé hægt að koma til móts við rannsóknarþarfir lögreglunnar með því að víkka rannsóknarheimildir, þó með því skilyrði að þær verði áfram veittar á grundvelli dómsúrskurðar.

„Á þessi sjónarmið fellst ég," sagði Ögmundur.  Hann sagðist þegar hafa kynnt þetta í ríkisstjórn og í innanríkisráðuneytinu væri nú unnið að frumvarpi sem bætir rannsóknarheimildir lögreglu þannig að þær veiti möguleika á að rannsaka starfsemi skipulagðra starfsemi glæpahópa, sem grunaðir eru um alvarlega glæpastarfsemi.

„Mikið liggur við að þjóðin sýni samstöðu gegn glæpum  og ofbeldi og við styðjum öll rækilega við bakið á löggæslufólki sem hefur það erfiða hlutverk að sporna gegn útbreiðslu þessara glæpahópa," sagði Ögmundur.

Hann sagði að lögreglan hefði ákveðið að efna til fréttamannafundar á morgun þar sem hún muni gera nánar grein fyrir þessum málum og til hvaða ráðstafana verði gripið.  

Ólöf Nordal sagðist fagna því að til skoðunar væri að víkka rannsóknarsvið lögreglu.  Sagðist hún skynja að mikill þungi sé nú í þessari umræðu og mikil ógn sem steðji að landinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert