Sanngirnisbætur fyrir Silungapoll

Vistheimilisnefnd kynnti skýrslu sína um Silungapoll, Reykjahlíð og Jaðar í …
Vistheimilisnefnd kynnti skýrslu sína um Silungapoll, Reykjahlíð og Jaðar í september í fyrra.

Sýslumaðurinn á Siglufirði hefur kallað eftir kröfum frá þeim sem dvöldu á vistheimilinu Silungapolli í samræmi við ákvæði laga um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

Skorað er á alla þá sem vistaðir voru á Silungapolli á vegum barnaverndar Reykjavíkur á árunum 1950-1969 og urðu þar fyrir illri meðferð eða ofbeldi sem olli varanlegum skaða, að lýsa kröfu um skaðabætur fyrir 22. janúar 2012.

Silungapollur var rekinn af Reykjavíkurborg og var ætlaður fyrir börn á aldrinum 3-7 ára. Þar var vistað 951 barn á starfstíma heimilisins. Auk þess var á heimilinu rekin sumardvöl fyrir börn á vegum Rauða kross Íslands en ekki kemur til álita að greiða sanngirnisbætur til þeirra, þar sem sú dvöl fellur ekki undir gildissvið laga nr. 26/2007.

Í september í fyrra kynnti vistheimilisnefnd skýrslu um vistheimilin Silungapoll, Reykjahlíð og heimavistarskólann á Jaðri. Þar kom fram að aðeins um 4% einstaklinga sem dvöldu á Silungapolli hefðui komið fyrir nefndina þrátt fyrir að hún hefði auglýst í fjölmiðlum eftir vitnisburði þeirra sem þar dvöldu. Nefndin sagði að þetta hefði takmarkað möguleika sína til að draga ályktanir um starfsemina

Róbert Spanó, formaður vistheimilisnefndar, sagði í viðtali við Morgunblaðið daginn eftir að skýrslan var kynnt, að nefndin hefði talið það verulega gagnrýnisvert að á Silungapolli hefði verið samtímis börn á vegum barnaverndaryfirvalda og börn á vegum félagasamtaka. „Það er ljóst af þeim frásögnum sem við fengum að þetta skipulag á starfseminni var sérstaklega erfitt fyrir þau börn sem voru þar mjög lengi og á vegum barnaverndaryfirvalda. Þá er það okkar afstaða að aðstaða og húsakostur á Silungapolli hafi lengst af verið ófullnægjandi og sum árin hafi allt of mörg börn verið þar vistuð, bæði með tilliti til húsakosts og starfsmannafjölda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert