DV gert að greiða skaðabætur

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Hjörtur

DV var í héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmt til að greiða tveimur einstaklingum 150 þúsund krónur hvorum um sig ásamt dráttarvöxtum fyrir myndbirtingu án heimildar. Jafnframt er DV gert að birta dóminn í heild í DV innan mánaðar.

Í helgarblaði DV, 16.-18. júlí 2010, var opnuumfjöllun um fólkið sem um ræðir undir fyrirsögninni: „Selja lækningu við MND og krabbameini.“ Var umfjöllunin skreytt tveimur ljósmyndum af fólkinu.

Fólkið, karl og kona, kærði starfsmenn DV til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands 15. september 2010 og var kæruefnið tvíþætt. Annars vegar laut kæran að umfjöllun blaðsins um fólkið og hins vegar að því, að starfsmenn DV hefðu tekið tvær ljósmyndir ófrjálsri hendi af vefsvæði félags í eigu þeirra og birt þær í DV.

Með úrskurði 9. nóvember 2010  komst siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að umfjöllun starfsmanna DV um fólkið hafi brotið gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands og að brotið væri ámælisvert. Síðara kæruatriðið var talið falla utan úrskurðarsviðs nefndarinnar og var því vísað frá, en gefið í skyn, að málið væri fremur „lögreglurannsóknar- og/eða innheimtumál“.

Fólkið krafðist þess með bréfi frá 11. apríl 2011, að DV viðurkenndi bótaskyldu í málinu og greiddi þeim skaðabætur auk lögmannskostnaðar, auk þess að birta afsökunarbeiðni í DV.

Með bréfi frá 18. apríl 2011 bauð DV fram greiðslu upp á 8.676 krónur til hvors stefnenda um sig og bauðst til þess að birta afsökunarbeiðni vegna myndbirtinganna.

Með tölvuskeyti til DV 1. júní 2011 voru kröfur fólksins útlistaðar nánar þannig, að bætur fyrir fjártjón og miska til hvors stefnenda næmu 100.000 krónum og lögmannsþóknun, að viðbættum virðisaukaskatti, næmi 125.500 krónum, samtals nam krafan því 325.500 krónum.

Hinn 7. júní 2011 barst lögmanni fólksins tölvuskeyti frá starfsmanni DV, þar sem upplýst var, að DV hefði lagt inn á reikning lögmannsstofunnar þá fjárhæð, sem áður hefði verið rædd, til lúkningar á málinu, 8.676 krónur til handa hvoru þeirra. Jafnframt var tilkynnt, að afsökunarbeiðni yrði birt í DV daginn eftir fyrir að hafa ekki aflað leyfis til notkunar á myndunum. Var tekið fram, að þetta væri gert án viðurkenningar á frekari bótaskyldu í málinu, sem af hálfu DV var talið lokið með þessu.

Lögmaður stefnenda svaraði bréfinu með tölvuskeyti tveimur dögum síðar, þar sem upplýst var, að litið yrði á greiðsluna sem innborgun á kröfu fólksins og tekið fram, að málinu yrði fram haldið. Þá voru forsvarsmenn stefnda hvattir til að kynna sér dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum, sem vörðuðu myndbirtingar, og þeim boðið að ljúka málinu utan réttar.

Hinn 22. júní 2011, degi áður en málið var þingfest, barst lögmanni fólksins tölvuskeyti frá lögmanni DV, þar sem upplýst var, að greiddar hefðu verið 32.648 krónur inn á reikning lögmannsstofunnar til lúkningar málinu, auk 23.848 krónur í lögmannskostnað.

Segir í dómi héraðsdóms að myndirnar hafi verið birtar án heimildar og að framsetning myndanna hafi ekki verið í nokkru samhengi við umfjöllun á því vefsvæði sem myndirnar voru teknar, enda þótt þess hafi verið getið, að myndirnar hafi verið sóttar þangað. Þá voru fyrirsagnir blaðsins misvísandi um innhald efnisumfjöllunarinnar, sem myndirnar voru settar í samhengi við og umfjöllunin öll fólkinu ekki þóknanleg.

DV var einnig dæmt til að  greiða lögmannskostnað fólksins, 160 þúsund fyrir hvorn einstakling fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert