Frjótölurnar rjúka upp í Reykjavík

Þegar sólin skín og úrkoman er víðs fjarri rjúka frjótölurnar …
Þegar sólin skín og úrkoman er víðs fjarri rjúka frjótölurnar upp. mbl.is/Styrmir Kári

Íbúar höfuðborgarsvæðisins fagna sólinni og rigningarlausu dögunum en heldur bjartara hefur verið í vikunni en oft áður í sumar. Rigning sumarsins á höfuðborgarsvæðinu hefur aftur á móti haldið frjótölum niðri en núna, þegar stytt hefur upp og sólin skín, rjúka tölurnar upp. Algengt er að grasfrjó nái hámarki um mánaðamótin júlí og ágúst.

Á þessum tíma árs blómstrar grasið og þá er það víða óslegið. Þegar engin er úrkoman eru kjöraðstæður fyrir grasfrjó. Frjótölurnar geta hækkað á góðviðrisdögum fram til loka ágústmánaðar.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að á Akureyri hafi frjótala fyrir gras farið vel yfir 50 frjó/m3 rétt eftir miðjan mánuðinn og fór frjótalan hæst í 307 frjó/m3 18. júlí en mikil áhætta er talin vera á ofnæmisviðbrögðum þegar frjótala grasa fer yfir 50 frjó/m3.

Toppurinn af grasfrjóum 18. júlí er annar hæsti toppurinn sem mælst hefur á Akureyri síðan mælingar hófust en algengara er þó að hámark grasfrjóa sé í ágúst og því ekki gott að segja hvort hámarkinu sé náð í ár.

Rigningin á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar haldið frjótölum niðri en um leið og styttir upp þá rýkur frjótalan upp. Dagana 14.–19. júlí fór frjótala grasa ekki yfir 10 frjó/m3 sem þykir mjög lágt fyrir þennan árstíma en 20. júlí stytti upp og við það rauk frjótala grasa upp í 132 frjó/m3.

Búast má við áframhaldandi háum frjótölum fyrir gras næstu vikurnar en sem fyrr segir er algengast að grasfrjó nái hámarki um mánaðarmótin júlí og ágúst. 

Vefsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert