Hanna Birna verður kölluð á fund

Hanna Birna Kristjánsdóttir verður kölluð á opinn fund um lekamálið.
Hanna Birna Kristjánsdóttir verður kölluð á opinn fund um lekamálið. mbl.is/Ómar

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur ákveðið að kalla Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra á sinn fund til að ræða lekamálið. „Það er ljóst að af slíkum fundi verður,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um tímasetningu fundarins að sögn Ögmundar. „Nefndin vill ekkert gera sem hugsanlega gæti truflað rannsókn Umboðsmanns Alþingis á málinu. Við lítum svo á að þar sé málið í fullkomlega eðlilegum farvegi og nefndin mun ekki aðhafast fyrr en ljóst er hver niðurstaða Umboðsmanns Alþingis er,“ segir hann.

Ögmundur segir ljóst að tilskilinn fjöldi nefndarmanna sé því eindregið fylgjandi að efnt verði til fundar með ráðherra og hugsanlega fleiri aðilum í tengslum við þetta mál. „Það hefur ekki komið til atkvæðagreiðslu í nefndinni um málið og ekki reynt á vilja allra nefndarmanna en það er ljóst að af slíkum fundi verður á einhverju stigi,“ segir Ögmundur.

Gert er ráð fyrir því að fundurinn verði opinn almenningi. Að mati Ögmundar er æskilegt að fundurinn fari fram áður en þingið kemur saman 9. september. „Ég ítreka það þó að það ræðst algjörlega af framvindunni hjá Umboðsmanni Alþingis og það er algjört forgangsmál,“ segir hann.

Ögmundur Jónasson segir ljóst að af fundinum verði.
Ögmundur Jónasson segir ljóst að af fundinum verði. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert