Gengur aftur á bak upp Esjuna

Vilborg ætlar að ganga aftur á bak upp Esjuna klædd …
Vilborg ætlar að ganga aftur á bak upp Esjuna klædd jólapeysu. Af heimasíðu Barnaheilla

Þann 11. desember nk. ætlar fjallgöngugarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir að ganga í jólapeysu aftur á bak upp Esjuna. Hún reiknar með að gangan verði krefjandi og að hún verði um fimm klukkustundir að ná á toppinn. 

Gangan er hluti af fjáröflun Barnaheilla-Save the Children á Íslandi og taka nokkrir þjóðþekktir Íslendingar þátt. Þingkonan Eygló Harðardóttir ætlar að vera í jólapeysu heilan dag á Alþingi,Már Guðmundsson seðlabankastjóri ætlar að tilkynna vaxtaákvörðun í desember klæddur jólapeysu og þá ætlar presturinn Hildur Eir Bolladóttir að klæðast jólapeysu í messu á aðfangadagskvöld.

Var ekki búin að hugsa málið til enda

„Jú, ég held að þetta verði dálítið mál,“ segir Vilborg Arna í samtali við mbl.is. „Ég var ekki alveg búin að hugsa þetta til enda þegar ég tók þessa ákvörðun. Þetta var uppástunga sem barst og mér fannst þetta svo sniðugt að ég ákvað að segja já.“

Við nánari umhugsun áttaði Vilborg Arna sig á því að gangan gæti tekið á, enda notar maður allt aðra vöðva þegar gengið er aftur á bak. „Maður sér ekki fram fyrir sig, maður vill horfa aftur á bak en fá ekki hálsríg,“ segir hún.

Vilborg Arna reiknar með að ganga alla leið upp á topp þann 11. desember og telur að hún verði um fimm klukkustundir á leiðinni. Aðspurð segir hún að eflaust verði dálítil áskorun að komast upp klettabeltið efst í fjallinu. Þeir sem hafa áhuga á að ganga með Vilborgu þennan dag eru velkomnir með.

Hér er hægt að heita á Vilborgu

Um fjáröflun Barnaheilla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert