Vilja fordæmingu íslenskra stjórnvalda

Mynd frá Amnesty.
Mynd frá Amnesty. Ljósmynd/Amnesty

Íslandsdeild Amnesty International ítrekar þá áskorun sína frá árinu 2007 til íslenskra stjórnvalda að þau fordæmi mannréttindabrot Bandaríkjamanna með afdráttarlausum hætti. Þá hvetur Íslandsdeildin íslensk stjórnvöld til að taka undir með nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum sem hvatti bandarísk stjórnvöld í liðnum mánuði til að tryggja að meintir gerendur brotanna og hlutdeildarmenn þeirra verði sóttir til saka.

Amnesty International telur nýútkomna skýrslu nefndar á vegum öldungadeildar Bandaríkjaþings, um pyndingaraðferðir sem bandaríska leyniþjónustan CIA hefur beitt í tengslum við leynilegar yfirheyrslur og frelsissviptingu meintra liðsmanna hryðjuverkasamtaka, vera brýna áminningu um það refsileysi sem viðgengist hefur við þeim skelfilegu mannréttindabrotum sem framin eru í nafni „þjóðaröryggis“.

Útdráttur úr skýrslunni sem birtur var þann 9. desember 2014 inniheldur upplýsingar um hvernig bandaríska leyniþjónustan hefur beitt vatnspyndingum, sýndaraftökum, kynferðisofbeldi og öðrum tegundum pyndinga og annarri illri, ómannleg og niðurlægjandi meðferð gegn einstaklingum sem sættu þvinguðu mannshvarfi. Þessar aðgerðir bandarísku leyniþjónustunnar voru hluti af áætlun bandarískra stjórnvalda um leynilegt fangaflug og leynifangelsi sem hrundið var í framkvæmd í kjölfarið á þeim glæp gegn mannkyni sem framinn var 11. september árið 2001. Útdrátturinn veitir einnig upplýsingar um þau áhrif sem umræddar yfirheyrsluaðferðir og aðstæður í fangelsum hafa á hina meintu hryðjuverkamenn. Þeirra á meðal eru ofskynjanir, svefnleysi, ofsóknaræði og tilraunir til sjálfsmeiðinga.

Íslensk yfirvöld rannsaki fangaflug

Á liðnum árum hefur Amnesty International ítrekað farið fram á að íslensk yfirvöld rannsökuðu flug loftfara á vegum bandarísku leyniþjónustunnar um íslenska lofthelgi og millilendingar þeirra hér, auk þess að fordæma mannréttindabrot bandarískra stjórnvalda í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“.

Irene Khan, þáverandi aðalframkvæmdastjóri Amnesty International, ritaði forsætisráðherra Íslands bréf 13. júní 2006, þar sem vakin var athygli á ólöglegu fangaflugi og skyldu ríkja til að rannsaka og koma í veg fyrir leynilegan flutning fanga sem haldið er án dóms og laga. Bréfinu var ekki svarað af íslenskum stjórnvöldum.

Á árinu 2007 tók utanríkisráðherra Íslands, með hliðsjón af nýrri skýrslu Evrópuráðsins um fangaflug, ákvörðun um að fram færi rannsókn á meintu fangaflugi um Ísland. Íslandsdeild Amnesty International fagnaði þeirri ákvörðun en lýsti því jafnframt yfir að hún teldi löngu tímabært að íslensk stjórnvöld fordæmdu með afdráttarlausum hætti „mannshvörf“, pyndingar og önnur gróf mannréttindabrot sem framin hafa verið í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“ og krefðust þess að bandarísk yfirvöld greindu frá öllum leynilegum fangelsum og varðhaldsstöðvum þar sem fólk væri í haldi án dóms og laga. Íslensk stjórnvöld urðu ekki við þessari áskorun.

Þann 9. nóvember 2007 skilaði starfshópur utanríkisráðuneytisins skýrslu sinni, „Meint fangaflug. Umferð tengdra loftfara um Ísland.“ Í niðurstöðum hennar segir meðal annars að starfshópnum hafi verið gert að kanna og gera yfirlit yfir umferð loftfara er kunna að tengjast meintu fangaflugi um íslenska lofthelgi en að í þeirri vinnu hafi ekki falist „viðleitni til að staðfesta eða kanna frekar hvort um ólögmæta fangaflutninga um íslenskt yfirráðasvæði hafi verið að ræða“. Þá kemur fram að loftför sem kunni að hafa tengst meintu fangaflugi leyniþjónustu Bandaríkjanna hefðu haft viðkomu á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli, auk þess að hafa farið um íslenska lofthelgi, á tímabilinu september 2001 til júlí 2007.

Þann 12. desember 2014 greindi utanríkisráðuneytið frá því að það hefði farið yfir framkominn útdrátt úr skýrslu öldungadeildar Bandaríkjaþings og af þeirri skoðun yrði ekki ráðið að fjallað væri um Ísland eða millilendingar hér á landi með fanga. Hefði ráðuneytið í framhaldi af þessu farið fram á við bandarísk stjórnvöld að fá aðgang að sjálfri skýrslunni en að öðrum kosti upplýsingar um hvort Ísland komi fyrir í skýrslunni og þá að fá aðgang að þeim upplýsingum.

Í ljósi þeirrar staðfestingar sem nú er komin fram, í skýrslu öldungadeildar Bandaríkjaþings, á víðtækum mannréttindabrotum bandarískra yfirvalda í hinu svokallaða „stríði gegn hryðjuverkum“, ítrekar Íslandsdeild Amnesty International þá áskorun sína frá árinu 2007 til íslenskra stjórnvalda að þau fordæmi þessi mannréttindabrot með afdráttarlausum hætti. Þá hvetur Íslandsdeildin íslensk stjórnvöld til að taka undir með nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum sem hvatti bandarísk stjórnvöld í liðnum mánuði til að tryggja að meintir gerendur brotanna og hlutdeildarmenn þeirra verði sóttir til saka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert